Viðhorf hennar til lífsins heillaði alla

Fatastíllinn | 8. mars 2024

Viðhorf hennar til lífsins heillaði alla

Tískudrottningin Iris Apfel lést á dögunum 102 ára að aldri. Hún hafði alltaf athygli fyrir djarft fataval og sterkan persónuleika en skaust fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn þegar nútímalistasafnið MoMa hélt sýningu á fötum hennar árið 2005 undir titlinum Sjaldgæfur fugl en þá var hún 84 ára að aldri.

Viðhorf hennar til lífsins heillaði alla

Fatastíllinn | 8. mars 2024

Iris Apfel á tískusýningu Calvin Klein Collection 2017 í New …
Iris Apfel á tískusýningu Calvin Klein Collection 2017 í New York. Apfel varð fyrst heimsfræg 84 ára gömul og mikil tískufyrirmynd. AFP

Tískudrottningin Iris Apfel lést á dögunum 102 ára að aldri. Hún hafði alltaf athygli fyrir djarft fataval og sterkan persónuleika en skaust fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn þegar nútímalistasafnið MoMa hélt sýningu á fötum hennar árið 2005 undir titlinum Sjaldgæfur fugl en þá var hún 84 ára að aldri.

Tískudrottningin Iris Apfel lést á dögunum 102 ára að aldri. Hún hafði alltaf athygli fyrir djarft fataval og sterkan persónuleika en skaust fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn þegar nútímalistasafnið MoMa hélt sýningu á fötum hennar árið 2005 undir titlinum Sjaldgæfur fugl en þá var hún 84 ára að aldri.

„Það er verið að ráðast í fataskápinn minn. Ég hélt alltaf að maður þyrfti að vera dauður til þess að vera með sýningu í listasafninu,“ sagði Apfel á þeim tíma.

Harold Koda sýningarstjóri sagðist það krefjast hugrekkis að klæðast með sama hætti.

„Að klæðast svona, maður þarf að búa yfir sterkri og menntaðri sjónrænni skynjun. Það krefst hugrekkis. Ég er alltaf að hugsa, ekki reyna þetta heima,“ sagði Koda.

Fyrir þennan tíma var Apfel þekktur innanhússhönnuður og sérfræðingur í textíl. Hún hafði til að mynda endurhannað Hvíta húsið fyrir níu forseta. 

Iris B. Apfel árið 2008. Takið eftir stórkostlegu hálsmeni hennar.
Iris B. Apfel árið 2008. Takið eftir stórkostlegu hálsmeni hennar. AFP

Elsti unglingurinn

Apfel kallaði sig gjarnan elsta núlifandi unglinginn. „Ég er ekki falleg og verð það aldrei. En það skiptir ekki máli. Ég bý yfir einhverju miklu betra, ég hef stíl.“

Faðir Apfel seldi spegla en móðir hennar var einstaklega smekkleg og hafði hætt í lögfræðinámi til þess að reka verslun. „Hún elskaði fylgihluti. Hún vissi alltaf hvað átti að gera með hitt og þetta. Svo var hún meistari að stílísera slæður,“ sagði Apfel í viðtali við Vogue árið 2021.

Amma Apfel leyfði henni að leika sér með ýmis efni og átti þessi bakgrunnur eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar.

„Þarna kynntist ég textílheiminum án þess að átta mig á því fyrr en löngu seinna. Ég skemmti mér konunglega við að setja saman ólíka liti og efni. Þarna kynntist ég þeirri tilfinningu sem fylgir því að skapa.“

Frá unga aldri hafði Apfel dreymt um að verða listamaður og lærði listasögu við háskólann í New York. Hún starfaði fyrst sem kennari og síðar sem blaðamaður. Eftir seinni heimstyrjöldina hóf hún störf við að selja textíl og antík muni. Smám saman færðist hún yfir í innanhússhönnun. 

Árið 1948 giftist hún Carl Apfel og stofnuðu saman fyrirtækið Old World Weavers sem fékk vefara til þess að skapa textíl í hefðbundnum stíl. Hann var ástin í lífinu hennar en þau eignuðust aldrei börn. 

Iris og Carl Apfel voru afar hamingjusöm saman. Hann lést …
Iris og Carl Apfel voru afar hamingjusöm saman. Hann lést árið 2015 og var þá nokkrum dögum frá því að verða 101 árs. Skjáskot/Instagram

Aldrei snobbuð með föt

Apfel hafði mikla ánægju að kaupa sér hluti en borgaði aldrei uppsett verð. Hún valdi frekar að fara á útsölur og kaupa vandaðar flíkur á niðursettu verði og para þær við dásemdir sem hún fann á mörkuðum fyrir slikk.

Apfel átti mikið magn af fötum og fylgihlutum en þrátt fyrir það átti hún ekki erfitt með að velja uppáhaldsgripinn sinn. „The Wandering Jew - hringurinn sem eiginmaður minn átti. Við keyptum hann í Dublin á afmælinu hans 4. ágúst 1958. Hann tók hann aldrei af sér,“ sagði Apfel í viðtali við The Guardian.

Apfel var aldrei snobbuð með föt og fatastíllinn hennar var alltaf skemmtilegur. „Mér finnst fataskápurinn minn einkennast af miklli gleði. Ég set aldrei neitt í hann sem mér líkar ekki við. Ég spila af fingrum fram. Prófa hitt og þetta. Þetta er eins og að leika djass.“

Viðhorf hennar til lífsins heillaði alla

Apfel var gríðarlega vinsæl en hún var til að mynda með þrjár milljónir fylgjenda á Instagram. Það sem heillaði fólk var ekki aðeins fatastíllinn heldur viðhorf hennar til lífsins og hvernig það braust fram í fatavali.

„Þegar maður klæðist ekki eins og aðrir þá þarf maður ekki að hugsa eins og aðrir,“ sagði Apfel. „Ég reyni alltaf að vera hamingjusöm. Ég læt ekki angra mig það sem er liðið. Við vitum ekki hvort það verði framtíð þannig að ég reyni að gera sem mest úr núinu.“

Iris Apfel árið 2021.
Iris Apfel árið 2021. AFP/Jamie McCarthy
Móðir Apfel var mjög smekkleg og ráðlagði mörgum um fatastílinn.
Móðir Apfel var mjög smekkleg og ráðlagði mörgum um fatastílinn. Skjáskot/Instagram
mbl.is