Shakespeare besta myndin og Benigni og Paltrow bestu leikararnir

Leikararnir Paltrow, Dench, Coburn og Benigni með Óskara sína.
Leikararnir Paltrow, Dench, Coburn og Benigni með Óskara sína. Reuters

Ítalinn Roberto Benigni varð í nótt fyrstur til að vinna Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki í kvikmynd sem ekki er leikin á ensku. Mynd hans, Lífið er fagurt var einnig valin besta erlenda myndin. Gwyneth Paltrow var valin besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir myndina Ástfanginn Shakespeare. Steven Spielberg var valinn besti leikstjórinn og Ástfanginn Shakespeare besta myndin en sú mynd fékk 7 verðlaun, þar á meðal fyrir besta frumsamda handritið.

Judi Dench var valin besta leikkona í aukahlutverki í sömu mynd og James Coburn var valinn besti karlleikarinn í aukahlutverki fyrir leik í myndinni Affliction. Umdeildustu verðlaunin voru sérstök heiðursverðlaun sem The Elia Kazan hlaut. Kazan sakaði nokkra listamenn í Hollywood um kommúnisma á tímum kommúnistaveiðanna á sjötta áratugnum og margir hafa ekki gleymt því enn. Þegar leikstjórinn Martin Scorsese og leikarinn Robert De Niro. afhentu Kazan heiðursóskarinn sátu sumir áhorfendur, þar á meðal leikararnir Nick Nolte og Ed Harris, sem fastast í stólum sínum meðan aðrir hylltu leikstjórann. Kazan, sem er 89 ára, leikstýrði m.a. myndunum On the Waterfront og East of Eden.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert