Skólahald hefst á ný í grunnskólum í Beslan

Börn og foreldrar í skólum í Beslan minntust fórnarlamba hryðjuverkanna …
Börn og foreldrar í skólum í Beslan minntust fórnarlamba hryðjuverkanna með mínútuþögn í dag. AP

Nemendur í grunnskólum í Beslan í Norður-Ossetíu, sneru aftur í skólann í dag, tveimur vikum eftir að gíslataka hryðjuverkamanna í einum skóla bæjarins hófst, en henni lauk með blóðsúthellingum og dauða mörg hundruð barna og fullorðinna.

Skóladagur barnanna hófst með mínútuþögn nemenda og kennara og embættismenn á staðnum sögðu að skólarnir, sem eru sjö talsins, myndu stytta skóladaginn í dag.

„Ég var hræddur meðan á hryðjuverkunum í skóla nr. 1 (sem ráðist var á) stóð,“ sagði Kaitar Kolojef, nemandi í fjórða bekk í einum skólanna í Beslan. „Vinir mínir voru líka hræddir, en ég reyndi að róa þá og sagði þeim að vera ekki hræddir og að allt yrði í lagi,“ sagði drengurinn.

Börn úr skólanum sem ráðist var á hafa verið send í leyfi til þess að jafna sig á atburðunum og tók skóli þeirra því ekki til starfa í dag.

Einn helsti saksóknari Rússa hefur gagnrýnt hlutverk lögreglu og sérsveita meðan á umsátrinu stóð, en það varði í þrjá daga. Hann vill að rannsakað verði sérstaklega hvað þessir aðilar aðhöfðust fyrir og meðan á neyðarástandinu stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert