Tony Blair telur kjark í Breta eftir hryðjuverkaárásirnar

Tony Blair flytur ávarp í Downingstræti 10 í dag.
Tony Blair flytur ávarp í Downingstræti 10 í dag. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, lagði áherslu á það í ávörpum sem hann flutti til þjóðar sinnar í dag, að Bretar muni ekki láta hryðjuverkaárásirnar í morgun hafa áhrif á sig og lífshætti sína. „Þeir sem frömdu þessa hræðilegu verknaði hafa ákveðið að leggja áherslu á sín gildi með hryðjuverkum og það er rétt, að á þessari stundu sýnum við hvernig við leggjum áherslu á okkar gildi," sagði Blair m.a.

Í gær túlkaði Blair gleði Breta yfir því að Lundúnir urðu fyrir valinu þegar Alþjóða ólympíunefndin ákvað að ólympíuleikarnir árið 2012 yrðu haldnir í Lundúnum. Í dag þurfti hann að hvetja þjóð sína til dáða eftir hryðjuverkaárásir sem urðu 50 manns að bana.

Blair sagði að þetta væri sorgardagur en Bretar myndu ekki breyta út af sínum venjum. Hann fagnaði yfirlýsingu Múslimaráðsins í Bretlandi, þar sem hryðjuverkin voru fordæmd, og sagði að þótt árásarmennirnir segðust fremja illvirki sín í nafni íslamstrúar þá vissu menn, að mikill meirihluti múslima, bæði í Bretlandi og annarstaðar, væri löghlýðnir borgarar sem hefðu jafn mikla skömm á hryðjuverkamönnum og aðrir.

Blair hefur oft sýnt mikla hæfileika til að þjappa Bretum saman þegar hætta eða sorg hefur steðjað að. Þegar Díana prinsessa lést í bílslysi árið 1997 flutti Blair ræðu þar sem hann kallaði hana prinsessu fólksins. Skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 hélt Blair ræðu þar sem hann sagði að Bretar myndu standa við hlið bandarískra vina sinna á þessari sorgarstundu og myndu, eins og þeir, ekki una sér hvíldar fyrr en þessi illska yrði burt rekin úr heiminum.

Í ávarpinu, sem Blair flutti í dag eftir að hann kom til Lundúna frá Gleneagle í Skotlandi, vísaði hann með óbeinum hætti til þeirrar staðfestu, sem Lundúnabúar þóttu sýna meðan á loftárásum Þjóðverja á borgina stóð í heimsstyrjöldinni síðari.

„Ég vil votta Lundúnabúum virðingu fyrir það þolgæði og rólyndi sem þeir hafa sýnt en þeir hafa brugðist við með sínum einkennandi hætti," sagði Blair. Hann sagði, að gripið verði til umfangsmikilla aðgerða lögreglu og öryggissveita til að tryggja, að þeir sem bera ábyrgðina á árásunum þurfi að svara til saka. Þá sagði Blair, að Bretar muni sýna fram á það, með virðingu og hugrekki, að þeirra gildi séu mun varanlegri en hryðjuverkamannanna.

„Tilgangur hryðjuverka er einmitt sá að ógna fólki og valda því ótta en við munum ekki láta óttann sigra okkur," sagði Blair.

Tony Blair var greinilega brugðið þegar hann flutti stutt ávarp …
Tony Blair var greinilega brugðið þegar hann flutti stutt ávarp í Gleneagles í morgun. Hann hafði þá fengið fregnir af því að 40 manns hið minnsta hefðu látið lífið. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert