Bresk leyniþjónusta taldi litla hættu á hryðjuverkaárás

Þremur vikum fyrir sprengjuárásirnar í Lundúnum taldi breska leyniþjónustan að …
Þremur vikum fyrir sprengjuárásirnar í Lundúnum taldi breska leyniþjónustan að engir hópar hefðu bæði vilja og getu til að gera slíkar árásir. AP

Innan við mánuði fyrir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum töldu helstu leyniþjónustustofnanir Bretlands og yfirmenn lögreglu að enginn hópur byggi bæði yfir vilja og getu til að ráðast á Bretland. Þetta kemur fram í leynilegri skýrslu þar sem lagt var mat á hryðjuverkahættu í landinu en bandaríska blaðið New York Times fjallar um skýrsluna í dag.

Skýrslan var send til breskra stofnana, erlendra ríkisstjórna og fyrirtækja um miðjan júní, um þremur vikum áður en fjórar sprengjur sprungu í lestum og strætisvagni í miðborg Lundúna 7. júlí.

New York Times segir að skýrslan hafi leitt til þess að breska ríkisstjórnin lækkaði viðbúnað vegna hryðjuverka um eitt stig. Skýrslan var gefin út á vegum miðstöðvar sem að standa helstu leyniþjónustur Bretlands, lögregla og tollayfirvöld.

Haft er eftir breskum embættismönnum, að lækkun viðbúnaðarstigsins hafi ekki haft nein raunhæf áhrif á viðbúnaðinn.

New York Times segir að orðalag í skýrslunni komi á óvart vegna þess að þar sé því haldið fram að aukin umsvif hryðjuverkamanna í Bretlandi séu bein afleiðing átakanna í Írak. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og aðrir ráðherrar hafa að undanförnu gagnrýnt yfirlýsingar um að stuðningur Breta við hernaðaraðgerðirnar í Írak og vera bresks hers þar séu helsta ástæðan fyrir hryðjuverkaárásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert