Róttækur klerkur farinn frá Bretlandi

Sheikh Omar Bakri Mohammed sagði skömmu eftir hryðjuverkin í Lundúnum …
Sheikh Omar Bakri Mohammed sagði skömmu eftir hryðjuverkin í Lundúnum í síðasta mánuði að íslamistar myndu halda áfram að fremja ódæðisverk í landinu þar til stjórnvöld í Bretlandi drægju herlið sitt til baka frá Írak og Afganistan. Reuters

Róttæki klerkurinn Omar Bakri Mohammed, sem átt hefur yfir höfði sér ákæru fyrir landráð í Bretlandi, hefur yfirgefið landið. Mun hann hafa haldið til Miðausturlanda. Bakri, sem er fæddur á Sýrlandi, hlaut harða gagnrýni þegar hann neitaði að fordæma hryðjuverkin í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn og tilraunir til hryðjuverka hálfum mánuði síðar.

Bakri er andlegur leiðtogi öfgasamtakanna al Muhajiroun, sem búist er við að verði bönnuð með vísun í ný hryðjuverkalög í Bretlandi. Bakri hafði mælst til þess að múslimar tilkynntu lögreglu ekki um hugsanlega hryðjuverkaógn í Bretlandi.

Þá sagði hann það skyldu trúbræðra sinna í Bretlandi, að berjast gegn breskum her í Írak og Afganistan.

„Ég ætla að snúa aftur eftir fjórar vikur… vegna þess að fjölskylda mín er í Bretlandi,“ sagði Bakri í samtali við bresku útvarpsstöðina Radio Live Five, en hann var þá staddur í Líbanon, að eigin sögn til að heimsækja móður sína.

Anjem Choudary, samstarfsmaður Bakris, sagði í samtali við bresku fréttastofuna Sky, að hann hefði farið að sinna skyldustörfum sínum í Líbanon og færi hugsanlega eftir það til einhverra landa í arabísku furstadæmunum.

SKY

Sheikh Omar Bakri Mohammed hvatti trúbræður sína í Bretlandi til …
Sheikh Omar Bakri Mohammed hvatti trúbræður sína í Bretlandi til ofbeldisverka og á yfir höfði sér ákæru fyrir landráð. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka