"Banabitinn" verði bannaður

"BANABITINN" er hún stundum kölluð, herta fitusýran, djúpsteikingarolían, sem er svo algeng í hvers konar skyndimat. Í Bandaríkjunum og Kanada er nú verið að skera upp herör gegn hertum fitusýrum og stefnt að því að banna notkun þeirra að mestu. Það getur þýtt, að frönsku kartöflurnar verði bráðum búnar að lifa sitt fegursta.

Fyrir þremur árum ákváðu yfirvöld í New York-borg að banna reykingar á veitingastöðum en nú ætla þau að ráðast gegn og banna að mestu notkun hertrar fitusýru á veitingastöðum, næstum 25.000 talsins. Það sama er á döfinni í Chicago og einnig í Kanada. Mun væntanlegt bann ekki síst koma við hamborgara- og kjúklingastaði, McDonald's, Burger Kings, Kentucky Fried Chicken, Dunkin' Donuts og fleiri. Var frá þessu sagt á fréttavef Berlingske Tidende fyrir helgi.

Horfin að mestu í Danmörku

Danir urðu fyrstir til þess 2003 að setja ákveðnar reglur um notkun hertrar fitusýru í mat og samkvæmt þeim má hún ekki vera nema 2% af fituinnihaldinu. Getur það varðað allt að tveggja ára fangelsisvist að brjóta gegn banninu. Í Danmörku brást McDonalds við með því að steikja frönsku kartöflurnar upp úr olíum, sem ekki innihalda herta fitusýru.

Í nýlegri grein frá danska hollusturáðinu í alþjóðlega vísindatímaritinu Atherosclerosis kemur fram, að á örskömmum tíma hafi hert fitusýra horfið að mestu úr umferð í Danmörku.

"Við vonum, að skýrslan geti orðið hvatning fyrir heilbrigðisyfirvöld í öðrum Evrópuríkjum og raunar víðar um heim," segir Bjørn Richelsen, prófessor og formaður hollusturáðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »