Morðið á sænska kameldýrinu leyst

Hið dularfulla dráp á kameldýri sem fannst við þjóðveg E22 skammt frá Karlskrona í Svíþjóð í morgun hefur verið leyst. Kameldýrið mun hafa sparkað upp lúgu framan á kerrunni sem það var flutt í og misst fótinn út um gatið og slasast svo alvarlega að dýralæknir kom og tók það af lífi.

Verið var að flytja dýrið frá búgarði á Öland þar sem kameldýr eru ræktuð. Þetta kameldýr var á leið til kaupanda í Suður-Svíþjóð. Bílstjórinn mun hafa ekið um 3 kílómetra áður en hann áttaði sig á að eitthvað var ekki í lagi.

Samkvæmt Aftonbladet var hræið lagt út í skurð og var sótt af öðrum bíl klukkan átta í morgun.

mbl.is