Einn ákærður vegna sprengjuárása á Bretlandi

Lögregla á Bretlandi hefur ákært karlmann fyrir aðild að samsæri um sprengjuárásir en maðurinn, íraskur læknir að nafni Bilal Abdullah, er einn þeirra átta, sem handteknir voru eftir misheppnaðar sprengjuárásir í Lundúnum og Glasgow um síðustu helgi.

Abdullah, sem er 27 ára, mun koma fyrir dómara á morgun. Er ákæran byggð á lögum um sprengiefni frá árinu 1883. Þar kemur fram að Abdullah hafi á fyrri hluta þessa árs með ólöglegum hætti og illum hug sammælst við aðra um að valda sprengingum, sem líklegar væru til að valda dauða eða líkamstjóni. Viðurlög eru allt að ævilangt fangelsi.

Abdullah var handtekinn við flugvallarbygginguna í Glasgow eftir að hann og Indverjinn Kafeel Ahmed óku logandi jeppa á bygginguna. Ahmed, sem er 27 ára frá Bangalore, fékk lífshættuleg brunasár og liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Glasgow.

Indversk dagblöð skýrðu frá því í gær, að Ahmed hefði hringt í móður sína frá Íslandi í síðustu viku og sagt henni, að ekki yrði hægt að ná sambandi við hann á næstunni.

Sabeel bróðir Ahmeds, var handtekinn í Liverpool um síðustu helgi. Þá var Mohammed Haneef, frændi þeirra, handtekinn í Ástralíu í vikunni en hann var þá á flugvellinum í Brisbane á leið til Indlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert