Fréttaskýring: Grass í eldlínunni vegna ljóðs um Ísrael

Günter Grass er einn helsti rithöfundur Þjóðverja og er sennilega ...
Günter Grass er einn helsti rithöfundur Þjóðverja og er sennilega þekktastur fyrir skáldsöguna Tintrommuna. Reuters

Þýska nóbelsskáldið Günter Grass hefur vakið heiftarlegar deilur með ljóði, sem hann birti dagblaðinu Süddeutsche Zeitungá miðvikudag. Í ljóðinu sakar hann Ísraela um að leggja á ráðin um gereyðingu Írans og ógna öryggi heimsins.

Ljóðið heitir „Það sem verður að segja“ og þar segir Grass að hann hafi ekki tekið fyrr til máls vegna þess að hann taldi að „óafmáanlegir“ glæpir Þjóðverja gegn gyðingum kæmu í veg fyrir að hann gæti gagnrýnt Ísrael opinberlega ásamt óttanum við að vera vændur um andúð á gyðingum. „Af hverju tala ég nú fyrst, aldraður og með síðustu blekdropunum: kjarnorkuveldið Ísrael ógnar heimsfriði, sem fyrir var brothættur? Vegna þess að segja verður það, sem á morgun gæti orðið of seint; einnig vegna þess að við – Þjóðverjar með nægar byrðar – gætum orðið milligöngumenn glæps, sem fyrirsjáanlegur er, og meðsekt okkar yrði ekki þurrkuð út með hefðbundnum undanslætti.“

Með ummælum sínum um að Þjóðverjar yrðu meðsekir vísar Grass til þess að Þjóðverjar hafa selt Ísrael kafbáta með flugskeytum, sem skjóta mætti á Írana.

Hörð viðbrögð Ísraela

Ísraelar hafa gagnrýnt ljóðið harðlega. „Það sem verður að segja er að það er evrópsk hefð að saka gyðinga um morðathafnir þegar páskahátíð gyðinga gengur í garð,“ sagði Emmanuel Nahshon, háttsettur sendierindreki í sendiráði Ísraels í Berlín. „Einu sinni áttu gyðingar að vilja nota blóð barna til að búa til matza-brauð, nú er ríki gyðinga gefið að sök að vilja þurrka út írönsku þjóðina.“

Nahshon sagði að Ísrael væri eina ríkið í heiminum, sem horfa þyrfti upp á það að „tilvistarréttur þess væri dreginn í efa“, og bætti við: „Við viljum lifa í friði við nágranna okkar. Og við erum ekki tilbúnir til að taka að okkur það hlutverk, sem Günter Grass ætlar okkur í viðleitni þýsku þjóðarinnar til að komast í sátt við söguna.“

Talsmaður Angelu Merkel kanslara, Steffen Seibert, var beðinn um að bregðast við ljóði Grass. „Í Þýskalandi er frelsi til listrænnar tjáningar við lýði og sömuleiðis, sem betur fer, hefur stjórnin frelsi til að bregðast ekki við hverju einasta listaverki,“ svaraði hann.

Dálkahöfundurinn Henryk M. Broder skrifaði í Die Weltað ljóðið sýndi að Grass væri „frumgerðin af hinum menntaða and-semíta“: „Grass hefur alltaf átt í vandræðum með gyðinga, en hann hefur aldrei orðað það með jafnskýrum hætti og í þessu „ljóði“.“

Grass hefur í sjónvarpsviðtölum sagt að fjölmiðlar séu samstilltir í gagnrýni á sig vegna ljóðsins, sem hann kveðst standa við. Hann fái hins vegar gríðarlegan stuðning í tölvupóstum, en hann nái ekki í gegn í opinberri umræðu.

Ísrael er eina kjarnorkuveldið í Mið-Austurlöndum, þótt það sé ekki opinbert. Ísraelar hafa sagt að þeir hafi ekki útilokað neina kosti í því hvernig þeir ætli að bregðast við kjarnorkuáætlun Írana, sem þeir segja að snúist um að smíða kjarnorkuvopn, sem myndu ógna tilvist Ísraels. Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, hefur iðulega dregið tilvistarrétt Ísraels í efa, en neitar að kjarnorkuáætlunin snúist um smíði vopna.

Umdeilt nóbelsskáld

Günter Grass er einn helsti rithöfundur Þjóðverja og er sennilega þekktastur fyrir skáldsöguna Tintrommuna, sem er hörð ádeila á stríð og hefur verið þýdd á íslensku.

Grass er 88 ára gamall. Hann fæddist í Danzig, sem nú er Gdansk í Póllandi, 16. október 1927.

Hann fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1999. Mikið uppnám varð þegar Grass upplýsti árið 2006 að hann hefði verið liðsmaður hinna illræmdu SS-sveita nasista.

Fannst mörgum þessi játning seint á ferðinni og töldu að hann hefði gert sig sekan um hræsni þegar hann hefði gerst siðferðislegur dómari í málum annarra.

Bloggað um fréttina