Erfðaskrá Mandela birt í dag

Nelson Mandela ásamt eiginkonu sinni Graca Machel
Nelson Mandela ásamt eiginkonu sinni Graca Machel AFP

Skiptastjóri dánarbús Nelsons Mandela mun í dag lesa erfðaskrá hans fyrir fjölskylduna en tveir mánuðir eru liðnir frá andláti Mandela. Vitað er að hann lætur eftir sig töluverð auðævi.

Þegar Mandela lést var hann kvæntur Graca Machel en fyrri eiginkona hans er Winnie Madikizela-Mandela. Hann lætur eftir sig rúmlega 30 afkomendur, börn, barnabörn og langafabörn.

Afkomendur hans hafa löngum deilt um auðævi hans og nafn og hafa nýtt sér Mandela-nafnið í auglýsingaskyni, svo sem á vín, fatnað, listmuni ofl.

Á meðan Mandela lá á sjúkrahúsi reyndu dætur hans að láta reka vini Mandela sem umsjónarmenn fjárfestingarsjóða í nafni föður síns. Lögfræðingur dætranna var lögfræðingur Mandela áður en þeim lenti saman og lögfræðingurinn var rekinn. Hann er talinn hafa selt falsaða listmuni í nafni Mandela og grætt á því margar milljónir dollara.

Elsta dóttir Mandela á að hafa skipt um lás á sveitabæ Mandela eftir andlát hans til þess að koma í veg fyrir að elsta barnabarn hans kæmist þar inn og svona mætti lengi telja.

mbl.is