McCann-hjónin komin til Portúgal

Kate og Gerry McCann.
Kate og Gerry McCann. AFP

Foreldrar Madeleine McCann, sem hvarf af hótelherbergi í Portúgal árið 2007, eru komnir til Portúgal á nýjan leik. Þau hafa farið í mál við fyrrverandi lögreglustjóra í landinu vegna aðdróttanna um hvarf dóttur þeirra í bók sem hann gaf út.

Mál Kate og Gerrys McCann er rekið fyrir dómstóli í Lissabon en var frestað eftir að lögreglustjórinn, Goncalo Amaral, rak lögmann sinn. Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að hjónin voni að málinu fari að ljúka.

Bók lögreglustjórans hétir Sannleikurinn um lygina (e. The Truth of the Lie). McCann hjónin saka lögreglustjórann um að reyna að koma á sig sök og koma í veg fyrir framgang réttvísinnar. Í bókinni gefur lögreglustjórinn m.a. í skyn að hjónin hafi falið lík Madeleine. Hún hafi látist af slysförum en hjónin reynt að láta það líta út fyrir að henni hefði verið rænt.

McCann-hjónin segja að bókin hafi skaðað rannsókn málsins og aukið á vanlíðan þeirra.

Hjónin krefjast hárra skaðabóta.

Leit að Madeleine McCann stendur enn yfir. Leitað er á svæði í nágrenni hótelsins í Portúgal. Meðal þess sem er nú verið að skoða er alda innbrota á svæðinu á þeim tíma sem McCann-fjölskyldan dvaldi í Portúgal. Dæmi eru um að innbrotsþjófurinn, eða þjófarnir, hafi áreitt börn í þessum innbrotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert