Verður sýningin að Breivik-safni?

Í dag var opnuð sýning í Osló sem tileinkuð er voðaverkunum í Osló og Útey þann 22. júlí árið 2011 þar sem 77 manns létust.

Sumir óttast að sýningin verði einskonar minnisvarði fyrir hryðjuverkamanninn Anders Breivik en á henni má meðal annars sjá marga muni sem Breivik notaði við voðaverkin.

Meðal safngripanna eru leifar bílsins sem hann sprengdi í loft upp við ríkisstjórnarbygginguna í Osló, fölsuð skilríki og heiðursmerki sem hann notaði í gervi lögreglumanns.

Sýningin er tímabundið hýst á neðstu hæð byggingarinnar sem Breivik reyndi að sprengja upp á sínum tíma.

Andstæðingar sýningarinnar hafa meðal annars barist gegn henni með Facebook herferð sem hefur fengið um 15 þúsund „like“. Margir þeirra sem tjá sig á síðu herferðarinnar segja það rangt að veita Breivik meiri athygli en hann hefur nú þegar fengið.

„Breivik safn verður líklega fjöður í hattinn fyrir honum,“ skrifar Facebook notandinn Bjorg Strand og annar notandi, Inger-Lise Christensen líkti safninu við þá firru að Bandaríkin myndu reisa styttu af Osama bin Laden.

Lögmaður fórnarlambanna, John Christian Elden, hefur einnig tjáð sig um málið.

„Breivik-safn í ríkisstjórnarbyggingunni? Nei takk. Sendið góssið til Dómsmálasafnsins í Þrándheimi þess í stað,“ skrifaði hann á Twitter.

Erna Solberg hefur varið sýninguna og segir bílhræið t.a.m. ekki skilja mikið eftir sig annað en hugmynd um stærð sprengingarinnar.

„Ég held að það sem sitji mest eftir sé hið andstæða, þ.e. ímyndin af andstöðu gegn öfgunum,“ sagði Solberg við AFP.

Falleg og virðuleg sýning

Lisbeth Kristine Royneland, sem missti 18 ára dóttur sína í Útey og leiðir stuðningshóp eftirlifenda og fjölskyldna fórnarlambanna segist styðja við sýninguna. „Hún einblínir ekki á árásarmanninn,“ sagði hún við AFP eftir að hafa skoðað sýninguna á þriðjudaginn en hún, eins og margir, neitar að nota nafn árásarmannsins.

Myndir, myndavélar og farsímar sem voru skyldir eftir á eyjunni af látnum eða særðum eigendum sínum eru meðal safnmuna og þrátt fyrir að eignir Breivik séu þar líka einblínir sýningin á fórnarlömbin og þá sem lifðu af, réttarhöldin og samstöðuna sem myndaðist í norsku samfélagi.

Elin L‘Estrange, sem lifði árásina í Útey af, sagði á Twitter að hún mælti með því að þeir sem óttast að sýningin yrði að Breivik-safni færu á þessa „fallegu og virðulegu“ sýningu.

Minnisvarði um fórnarlömbin í formi stórs stálhrings var einnig vígður í gær á Útey. Nöfn flestra fórnarlambanna eru rituð í hringinn en fjölskyldur sumra þeirra gáfu ekki leyfi fyrir því að nöfnin yrðu á minnisvarðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert