Íslenska kennd við Berkley háskóla

Merki Berkeley-háskóla.
Merki Berkeley-háskóla.

Kaliforníuháskóli í Berkeley býður upp á nám í íslensku í vetur. Íslenska verður meðal 59 tungumála sem kennd eru við skólann. Auk íslenskunnar bætist mongólska við í haust.

Skandinavíudeildin í Berkeley og Stofnun um Evrópurannsóknir (IES) taka þátt í að koma íslenskukennslunni af stað. Fram kemur í fréttabréfi háskólans að íslenska sé einnig kennd í Bandaríkjunum í Brigham Young-háskóla í Utah. Þá sendi Minnesota-háskóli nemendur á sumarnámskeið í Háskóla Íslands.

Fram kemur að þótt ekki margir tali íslensku sé tungumálið mikilvægt vegna tengslanna yfir Atlantshafið, bæði á milli Bandaríkjanna og Evrópu og á norðurheimskautssvæðið.

Í fréttabréfinu er haft eftir Jeroen Dewulf, forstjóra IES, að íslenska hafi verið eitt af fáum tungumálum í Vestur-Evrópu sem ekki var kennt í háskólanum. Flestir hafi farið til Íslands til að læra málið. Kynning Berkley á tungumálinu, bókmenntum og menningu muni búa nemendur undir að geta átt samskipti á tungumálinu og notað það í námi sínu eða í ferðum til landsins.

Jackson Crawford, tungumálakennari og þýðandi, annast kennsluna í vetur. Hann er sagður tala íslensku og norsku og hafa verið ráðgjafi við ýmis verkefni, meðal annars við kvikmyndina Frozen. Í viðtali við fréttabréf háskólans vekur hann athygli á sérstöðu íslenskunnar og getur sérstaklega um dugnað Íslendinga við nýyrðasmíði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: