47 fangar teknir af lífi í Sádi-Arabíu

Sádi Arabískir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Sádi Arabískir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

47 fangar voru teknir af lífi í Sádi Arabíu í morgun, þar á meðal sjítaklerkurinn Nimr al-Nimr en hann var dæmdur til dauða fyrir glæpi tengda hryðjuverkum. Nimr var áberandi í mótmælum gegn ríkisstjórn landsins árið 2011 en sjíta-múslímar hafa lengi kvartað yfir meðferð stjórnvalda á þeim.

Nimr var skotinn og handtekinn fyrir tveimur árum. Málið vakti mikla reiði og ófrið í nokkra daga. Dauðadómurinn yfir honum var staðfestur í október.

Bróðir Nimrs sagði hann hafa verið dæmdan sekan fyrir að hafa „leitað eftir erlendum afskiptum“, „óhlýðnast“ yfirvöldum og ógnað öryggissveitum. Hann hefur jafnframt kallað eftir því að fólk haldi ró sinni og mótmæli aftökunni ekki með ofbeldi.

Utanríkisráðherra Írans, Hossein Jaber Ansari, hefur þó lýst því yfir að Sádi-Arabar muni „greiða það dýru verði“ að hafa tekið Nimr af lífi. „Yfirvöld í Sádi-Arabíu styðja hryðjuverkasamtök og öfgamenn, en ráðast á gagnrýnendur með kúgun og aftöku,“ sagði Ansari í dag. 

BBC segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert