Árásin í Brussel: Samantekt

Að minnsta kosti 35 liggja í valnum og yfir 200 eru særðir eftir árásirnar í Brussel í morgun. „Það sem við óttuðumst hefur gerst,“ sagði Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, í morgun.

Sprengjurnar á flugvellinum sprungu með aðeins nokkurra mínútna millibili. Önnur varð kl. 8 að staðartíma, 7 að íslenskum tíma, og hin skömmu síðar. Báðar sprungu sprengjurnar á svæði flugstöðvarinnar þar sem fólk innritar sig í flug. Áður en sprengjurnar sprungu segjast sjónarvottar hafa heyrt skothvelli. Fréttir herma að önnur sprengjan hafi sprungið við afgreiðsluborð þar sem fólk innritar sérstaklega þungan farangur. Hin hafi sprungið nálægt kaffihúsi Starbucks í flugstöðvarbyggingunni. AP-fréttastofan segir að í öðru tilvikinu hafi taska sprungið með sprengjuefni. AP segist einnig hafa heimildir fyrir því að naglar hafi verið í annarri sprengjunni.

„Ég fann bygginguna hreyfast,“ er haft eftir Alex Rossi, fréttamanni Sky, sem var staddur á flugvellinum er sprengingarnar urðu.

Sprengja í hjarta Brussel

Um þrjátíu mínútum síðar sprakk svo sprengja á Maelbeek-neðanjarðarlestarstöðinni, skammt frá helstu byggingum Evrópusambandsins, í hjarta Brussel.

Ríkissaksóknari hefur staðfest að önnur sprengingin á flugvellinum var sjálfsmorðsárás. Hann fullyrðir að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Tveir hafa verið handteknir á lestarstöð í borginni Noord í morgun en yfirvöld segjast óttast að fleiri árásarmenn gangi enn lausir.

Flugvöllurinn er enn lokaður og verður það til að minnsta kosti kl. 18 í kvöld. Sömu sögu er að segja um lestarkerfið.

Í frétt Sky kemur fram að lögreglan hafi fundið Kalashnikov-riffil við lík árásarmannsins á flugvellinum. Þá hafi sprengjubelti, sem ekki hafði sprungið, einnig fundist í flugstöðvarbyggingunni.

Heilbrigðisráðherra Belgíu hefur staðfest að 14 létust í árásinni á flugvellinum, að minnsta kosti. Þar særðist 81 maður. Fjölmiðlar ytra segja að enn fleiri hafi slasast, eða 92.

Yfirmaður neðanjarðarlestarkerfisins segir að 20 hafi látist í sprengingunni á lestarstöðinni og 55 særst, þar af tíu lífshættulega. Fjölmiðlar segjast hafa heimildir fyrir því að enn fleiri hafi slasast eða 106.

„Þetta er svartur dagur í sögu Belgíu,“ sagði Michel forsætisráðherra í morgun. Hann sagði að yfirvöld óttist að fleiri árásir kunni að hafa verið skipulagðar.

Stjórnvöld hafa hvatt fólk til að halda sig heima og má segja að allt samfélagið sé lamað. 

Fyrir fjórum dögum var einn eftirlýstasti maður heims, Salah Abdeslam handtekinn. Hann er talinn vera einn af þeim tíu sem tóku beinan þátt í hryðjuverkaárásinni í París í nóvember og sá eini sem lifði hana af. 130 létust í þeirri árás.

Allt frá því að árásin í París var gerð hafa sérfræðingar í öryggismálum varað við því að fleiri árásir yrðu gerðar í Evrópu af hálfu Ríkis íslams og annarra hryðjuverkahópa. Þeir segja að árásin í París hafi sýnt og sannað hversu máttug og skipulögð slík samtök eru orðin. Því var öryggiseftirlit víða um álfuna hert til muna. 

Belgía hefur að þessu leyti verið í mjög viðkvæmri stöðu því að hlutfallslega hafa margir íbúar landsins farið til Írak og Sýrlands og svo virðist sem hópar í landinu skjóti skjólhúsi yfir hryðjuverkamenn eða menn sem tengjast hryðjuverkasamtökum og hjálpi þeim þannig að skipuleggja frekari árásir, segir í frétt Telegraph um árásirnar í morgun.

mbl
Fána Evrópusambandsins flaggað í hálfa stöng á húsi Evrópuþingsins í …
Fána Evrópusambandsins flaggað í hálfa stöng á húsi Evrópuþingsins í Brussel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert