Erfir eitt ríkasta konungsveldið

Vajiralongkorn við konunglega athöfn á síðasta ári.
Vajiralongkorn við konunglega athöfn á síðasta ári. AFP

Krónprinsinn Maha Vajiralongkorn verður kunngerður næsti konungur Taílands síðdegis í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti hans.

Vajiralongkorn, sem er 64 ára, erfir eitt ríkasta konungsveldi í heimi en um leið land í djúpri pólitískri kreppu, réttum fimmtíu dögum eftir andlát föður síns, Bhumibol Adulyadej konungs.

Krónprinsinn kom að konungshöllinni fyrr í dag, þar sem lík konungsins er varðveitt fram að bálförinni, sem haldin verður á næsta ári.

Eftir flóknum siðareglum mun prinsinn í kvöld veita áheyrn helstu fyrirmennum landsins, svo sem leiðtoga herforingjastjórinnar og forseta þingsins, sem mun þá bjóða honum að verða næsti konungur landsins.

Taílendingar komu saman í gærkvöldi og kveiktu á kertum. Fylktu …
Taílendingar komu saman í gærkvöldi og kveiktu á kertum. Fylktu þeir sér þannig að kertaljósin sýna táknin fyrir hinn nýlátna konung (til vinstri), og nýja konunginn. AFP

Rama X af Chakri-konungsættinni

„Krónprinsinn mun halda viðtökuræðu og eftir það votta virðingu sína fyrir framan málverk af konungnum,“ segir í tilkynningunni. Búddahof um allt landið hafa þá verið beðin um að slá á trommur og gong-bjöllur eftir athöfnina.

Í valdatíð sinni mun nýi konungurinn bera nafnið Rama X, eða Rama tíundi, af Chakri-konungsættinni. Hann mun þó ekki verða formlega krýndur fyrr en að lokinni bálför föður síns.

Valdatíð föðurins, sem lauk 13. október síðastliðinn, náði yfir sjö umbrotamikla áratugi sem einkenndust af uppreisn kommúnista, valdaránum og fjölmennum mótmælum. Í augum margra Taílendinga var konungurinn eini stöðugi máttarstólpinn í annars eldfimu stjórnmálaumhverfi.

Frétt mbl.is: Verðandi konungur skrautlegur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert