Héldu dóttur sinni fanginni í 15 ár

Lögreglubíll í Japan. Mynd úr safni.
Lögreglubíll í Japan. Mynd úr safni. Wikipedia

Japanskt par á sextugsaldri er í haldi lögreglu grunað um að hafa haldið dóttur sinni fanginni í 15 ár, en hún fraus í hel fyrr í mánuðinum, 33 ára að aldri.

Í frétt AFP segir að Yasutaka Kakimoto, 55 ára, og eiginkona hans Ykari, 53 ára, hafi viðurkennt fyrir lögreglu í Orsaka í Japan að þau hafi haldið dóttur sinni, Airi, í litlu herbergi heima hjá sér frá því að hún var 16 eða 17 ára.

Krufning á líki Airi leiddi í ljós að hún hafði frosið til dauða en hún var alvarlega vannærð og vó aðeins 18 kíló þegar hún lést. Foreldrarnir sögðu við lögreglu að þau hefðu haldið henni fanginni vegna þess að hún hefði verið árásargjörn og alvarlega veik á geði.

Í herbergi dótturinnar var talstöðvakerfi og voru tíu öryggismyndavélar víða um húsið. Lögregla áætlar að tilgangur myndavélanna hafi verið að halda leyndarmáli foreldranna öruggu. Þá er talið að þau hafi gefið henni að borða aðeins einu sinni á dag.

Foreldrarnir tilkynntu sjálf andlát stúlkunnar. Fyrst voru þau ákærð fyrir ólöglega meðhöndlun á líki dóttur sinnar en í kjölfarið ákærð fyrir frelsissviptinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert