Mótmælt víða í Íran

Forseti Írans, Hassan Rouhani, hefur verið harðlega gagnrýndur af landsmönnum …
Forseti Írans, Hassan Rouhani, hefur verið harðlega gagnrýndur af landsmönnum fyrir stjórnarhætti sína. AFP

Mótmæli gegn stjórnvöldum í Íran sem hófust í gær hafa nú breiðst út til nokkurra borga í ríkinu.

Fjölmenn mótmæli brutust út í borginni Rasht í norðri og Kermanshah í vestri. Þá söfnuðust mótmælendur einnig saman í borgunum Isfahan og Hamadan, auk smærri borga.

Upprunaleg ástæða mótmælanna eru almennar verðhækkanir. Stjórn forsetans, Hassan Rouhani, hefur til að mynda tvöfaldað verð á eggjum. Nú hafa mótmælin stigmagnast í fjöldamótmæli gegn klerkastjórninni og stefnu stjórnvalda.

Nokkrir hafa verið handteknir í Tehran, höfuðborg Írans. Hinir handteknu voru hluti af um 50 manna hópi sem safnaðist saman við torg í miðbænuum. Yfiröryggisstjóri í borginni segir í samtali við íranska fjölmiðla að hart yrði tekið á öllum slíkum fjöldasamkomum.

Þá voru 52 handteknir í aðgerðum lögreglu í borginni Mashad í norðausturhluta ríkisins.

Fjöldamótmæli í jafn mörgum borgum í Íran á sama tíma brutust síðast út árið 2009 þegar boðað var til umdeildra kosninga í kjölfar mótmælanna.

Í frétt BBC má sjá myndband af mótmælunum í Rasht.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert