Norður-Kórea samþykkir viðræður

Norður-Kórea hefur samþykkt að taka þátt í viðræðum við suðurkóreska ráðamenn í næstu viku. Fundurinn verður haldinn 9. janúar og þar verður lögð áhersla á að finna leið til að norðurkóreskir íþróttamenn geti tekið þátt í Vetrarólympíuleikunum sem verða haldnir í Suður-Kóreu í febrúar.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sagði fyrr í vikunni að það væri „gott tækifæri til að sýna samstöðu almennings,“ að senda fulltrúa landsins á Ólympíuleikana.

Talið er að fundurinn verði haldinn í Panmunjom, sem er á landamærum Norður- og Suður-Kóreu, að því er BBC greinir frá. 

Suðurkóreskur hermaður stendur vörð í bænum Panmunjom þar sem talið …
Suðurkóreskur hermaður stendur vörð í bænum Panmunjom þar sem talið er að viðræðurnar fari fram. AFP

Þetta verða fyrstu opinberu viðræður ráðamanna í Norður- og Suður-Kóreu síðan í desember 2015.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hefur talað um Vetrarólympíuleikana sem stórt tækifæri til að bæta tengslin á milli Kóreuríkjanna tveggja.

Sumir hafa reyndar bent á að þátttaka Norður-Kóreu í viðræðunum gæti haft áhrif á þátt Bandaríkjanna í friðarviðræðum.

Aðrir hafa lýst yfir efasemdum um mikilvægi viðræðnanna.

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í gær að fyrirhugaðar viðræður væru „niðurstaða alþjóðlegs þrýsting“ en bætti við að óvíst væri um áhrif þeirra til lengri tíma.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu.
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert