Forstjóri NSA hyggst hætta

Mike Rogers, forstjóri NSA.
Mike Rogers, forstjóri NSA. AFP

Forstjóri Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), Mike Rogers, hyggst láta af embætti á næstu mánuðum eftir að hafa gegnt embættinu í fjögur ár sem mörkuð hafa verið upplýsingalekum. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Samkvæmt fréttinni upplýsti Rogers starfsmenn NSA í dag um þá ákvörðun sína að hætta með vorinu. Rogers, sem er fyrrverandi flotaforingi í bandaríska sjóhernum, var tilnefndur í embættið árið 2014 af þáverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama. Það kemur í hlut núverandi forseta, Donalds Trumps, að tilnefna eftirmann Rogers.

Rogers var einn af fjórum háttsettum yfirmönnum í öryggismálum Bandaríkjanna sem sendu Trump skýrslu fyrir ári þar sem fram kom að rússnesk stjórnvöld hefðu haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 í þágu forsetans.

Skýrslan var mjög skaðleg fyrir Trump en Rogers er sá eini yfirmaðurinn af þessum þremur sem hefur haldið starfi sínu. Nú hyggst hann hins vegar láta af störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert