Misþyrmdi Wall og batt hana

Peter Madsen, til hægri. Hann er ákærður fyrir að hafa …
Peter Madsen, til hægri. Hann er ákærður fyrir að hafa misþyrmt og bundið sænsku blaðakonuna Kim Wall áður en hann myrti hana. AFP

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er ákærður fyrir að hafa misþyrmt og bundið sænsku blaðakonuna Kim Wall áður en hann myrti hana. Þetta kemur fram í ákæruskjölum sem danska dagblaðið Berlingske Tidende hefur undir höndum.

Madsen er ákærður fyr­ir að hafa orðið Wall að bana í ág­úst á síðasta ári á meðan þau voru í ferð á kaf­báti sem hann smíðaði.

Greint var frá því í síðustu viku að danska lögreglan sé sannfærð um að Madsen hafi skipulagt morðið á Wall og að hann hafi undirbúið sig fyrir það. Berlingske segir að í ákæruskjölunum komi fram í hverju sá undirbúningur hafi falist, en Madsen hafi m.a. tekið með sér um borð í kafbátinn Nautilus þann dag sög, hníf, oddmjótt skrúfjárn, teygjur og rörbúta.

Þá er Madsen ákærður fyrir að hafa misþyrmt Wall áður en hann myrti hana. Dánarorsök liggur fyrir, en saksóknari segir hana þó mögulega hafa verið skorna á háls eða kyrkta. 

Madsen hafi að því loknu sundurlimað lík hennar og að lokum bundið rörbúta við líkamshlutana til að þyngja þá niður og tryggja að þeir héldust á hafsbotninum.

Sjálfur hefur Madsen sagt að Wall hafi lát­ist af slys­för­um í kaf­bátn­um. Áður hélt Madsen því fram að hann vissi ekki um Wall þar sem hann hefði sett hana í land.

Madsen hef­ur síðan einnig viður­kennt að hafa varpað líki Wall í hafið, en lík­ams­hlutar henn­ar hafa síðan fund­ist í sjón­um og er talið að Madsen hafi hlutað lík henn­ar í sund­ur.

Rétt­ar­höld­in í mál­inu hefjast 8. mars og er bú­ist við niður­stöðu 25. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert