3 látnir eftir árás á Save the Children

Afganskar öryggissveitir við húsnaæði Save the Children í Jalalabad. Þrír …
Afganskar öryggissveitir við húsnaæði Save the Children í Jalalabad. Þrír létust í árás vopnaðra manna á svæðið og 24 eru særðir. AFP

Starfsemi mannúðarsamtakanna Save the Children í Afganistan hefur verið hætt tímabundið, eftir að vígamenn Ríkis íslams réðust inn á skrifstofu samtakanna í Jalalabad í morgun og myrtu þrjá.

24 til viðbótar særðust er vopnaðir menn réðust inn á skrifstofu samtakanna. Starfs­fólkið reyndi að fela sig en árás­in hófst skömmu eft­ir að fólk mætti til vinnu klukk­an 9 í morg­un að staðar­tíma.

Aðeins nokkr­ir dag­ar eru liðnir frá því taliban­ar réðust inn á hót­el í Kabúl og drápu að minnsta kosti 22, flest­ir þeirra voru út­lend­ing­ar.

Sagði fréttamaður AFP-fréttastofunnar að árásin hefði enn staðið yfir nú síðdegis, nokkrum klukkustundum eftir að yfirvöld sögðu henni lokið.

„Save the Children getur staðfest að atvikið sem hefur áhrif á skrifstofu okkar í Jalalabad í Afganistan er enn í gangi, sagði í yfirlýsingu frá samtökunum. „Sem viðbragð við því þá hefur allri starfsemi okkar í Afganistan verið hætt tímabundið og skrifstofum okkar lokað.“

Árásarmennirnir sprengdu fyrst upp bíl fyrir utan húsnæði samtakanna og notuðu því næst sprengjuvörðu til að komast inn í bygginguna. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Attaullah Khogyani, talsmaður fylkisstjóra Nangarhar, sagði þrjá hið minnsta hafa farist í árásinni – tvo öryggisverði og einn almennan borgara. Þá hafi 24 særst í árásinni. Þá greindi hann áður frá því að árásarmennirnir hefðu verið í klæddir eins og hermenn.

Tæplega 50 manns var bjargað úr kjallara byggingarinnar, þar sem fólkið hafði falið sig fyrir árásarmönnunum, sagði í yfirlýsingu frá Khogyani.

Mohammad Amin, sem var inni í byggingunni þegar árásin var gerð, sagði í samtali við AFP að hann hafi heyrt háan hvell. „Við hlupum í skjól og ég sá byssumann ráðast á aðalhliðið með sprengjuvörpu til að komast inn á svæðið, þannig að ég hoppaði út um gluggann.“

Ríki íslams hefur hert á árásum sínum á borgir í Afganistan undanfarna mánuði og hafa vígamenn einkum beint aðgerðum sínum gegn moskum og öryggissveitum.

Það er hins vegar sjaldan sem vígasamtök lýsa yfir ábyrgð á árásum á hjálparsamtök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert