Skotárás í skóla í Flórída - einn látinn

Árásarmaðurinn er enn laus og mikill viðbúnaður á vettvangi.
Árásarmaðurinn er enn laus og mikill viðbúnaður á vettvangi. Ljósmynd/Twitter

Nokkrir eru særðir eftir skotárás í skóla í Parkland í Flórída og í það minnsta einn er látinn. Fólk er hvatt til þess að forðast svæðið þar sem árásarmaðurinn er enn laus.

BBC greindi frá.

Í það minnsta einn er látinn, að því er fréttamaður dagblaðsins Miami Herald hefur eftir lögreglumanni á vettvangi. Þá er hlúð að hinum særðu á grasflöt fyrir framan skólann. 

Lögregla biður nemendur og kennara að halda kyrru fyrir inni í skólanum þar til lögreglumenn komast til þeirra. Bandaríska alríkislögreglan FBI er einnig til aðstoðar á vettvangi.

Foreldrum er gert að halda sig í um einnar mílu fjarlægð frá skólanum og reyna sumir að róa börnin sín, sem enn eru inni í skólanum, í gegnum síma. Skotárásin hófst undir lok skóladags en ekki hefur enn tekist að rýma skólann.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert