Hafði ákveðið að myrða Wall

Peter Madsen ræðir við lögreglumenn fyrst eftir að hann kom …
Peter Madsen ræðir við lögreglumenn fyrst eftir að hann kom í land. AFP

Sakleysisleg heimsókn blaðakonu í kafbát sem lá við bryggju í Kaupmannahöfn vatt smám saman upp á sig þar til úr varð eitt umtalaðasta morðmál allra tíma í Skandinavíu. Réttarhöldin yfir kafbátseigandanum Peter Madsen hefjast á fimmtudag. Hann er sakaður um að hafa drepið blaðakonuna Kim Wall og bútað lík hennar svo niður og hent því í sjóinn. Hann er enn fremur ákærður fyrir að beita blaðakonuna grófu kynferðislegu ofbeldi. Hann neitar sök en segir slys hafa átt sér stað um borð í kafbátnum sem hann hannaði sjálfur og smíðaði. Hann hefur þó viðurkennt að hafa bútað lík hennar niður og hent því sjóinn. Madsen hefur ítrekað breytt framburði sínum frá því að málið komst upp 11. ágúst. 

Í ítarlegri samantekt um morðið á Wall á vef norska ríkissjónvarpsins er m.a. farið yfir það hvernig Madsen hefur breytt framburði sínum.

Breytti ítrekað framburði

Kafbáturinn Nautilus sökk og fór Madsen um borð í lítinn bát sem flutti hann í land. Þar tók lögreglan á móti honum og yfirheyrði. Hann sagðist þá hafa verið einn í bátnum er hann sökk. Þetta var 11. ágúst.

Þann 21. ágúst fannst hluti af líki Wall. Þá viðurkenndi Madsen loks að hafa sett lík hennar í sjóinn en sagði að um slys hefði verið að ræða.

Leitað að munum tengdum Kim Wall.
Leitað að munum tengdum Kim Wall. AFP

5. september segir hann að lúga á kafbátnum hafi skollið í höfuð Wall og hún látist. Hann harðneitaði að hafa sundurlimað líkið.

30. október viðurkennir hann að hafa bútað lík blaðakonunnar niður. Hann segir að kolmónóxíðseitrun gæti hafa banað Wall.

Fór úr boði til að taka viðtal

Sænska blaðakonan Kim Wall hitti Madsen á bryggjunni í Kaupmannahöfn að kvöldi 10. ágúst og um klukkan 19 fóru þau í siglingu á kafbátnum. Hún hafði verið í veislu fyrr um kvöldið en ákvað skyndilega að yfirgefa hana ásamt kærasta sínum til að geta hafið vinnu við frétt um uppfinningamanninn Madsen.

Báturinn sigldi úr höfn og næsta klukkutímann sjást Madsen og Wall saman á fjölmörgum myndum sem teknar voru af bátum í nágrenninu. 

Saksóknarinn segir að Madsen hafi undirbúið voðaverkið vel. Hann hafi haft snæri með í för, oddhvöss skrúfjárn og sög.

Sagðist ekki muna fullt nafn hennar

En hvað nákvæmlega gerðist um borð í kafbátnum er enn óljóst. Lögreglan telur að Madsen hafi myrt Wall milli klukkan 22 að kvöldi 10. ágúst og klukkan 10 að morgni þess 11. en þá sökk kafbáturinn til botns á hafi úti.

Madsen sagði að sér hefði verið bjargað úr sjónum, vélarbilun hefði orðið í bátnum. Er hann kom í land bar hann sig vel við fréttamenn og sagði sína fyrstu útgáfu af lygasögunni um hvað hafði gerst um borð í bátnum. Hann sagðist vera feginn að vera á lífi, bilun hefði orðið til þess að vatn streymdi inn í bátinn.

Lögreglan spurði Madsen um konuna sem var með honum um borð. Hann sagðist ekki muna hvað hún héti og að númerið hennar væri í símanum hans sem lægi nú á hafsbotni. Hann sagði blaðamanni að hann hefði farið einn í siglingu á bátnum. Hann sagði lögreglu síðar frá því að hann hafði skilað Wall í land á bryggjuna um klukkan 22.20 kvöldið áður.

Mjög fljótlega átti eftir að koma í ljós að þetta var allt saman lygi.

Sökkti bátnum viljandi

Lögreglan telur að Madsen hafi sökkt bátnum til að reyna að fela sönnunargögn. Hann var því handtekinn síðdegis 11. ágúst og ákærður þegar í stað fyrir að bera ábyrgð á dauða Wall. 

Hér sést Kim Wall um borð í UC3 Nautilus 11. …
Hér sést Kim Wall um borð í UC3 Nautilus 11. ágúst í höfninni í Kaupmannahöfn. AFP

Málið vakti strax athygli víða um heim enda komu við sögu í því sérvitur uppfinningamaður, blaðakona og kafbátur. Og enn óhugnanlegri hlutir áttu eftir að koma í ljós.

Þann 12. ágúst byrjar lögreglan á því að reyna að ná bátnum upp af hafsbotni. Þá var farið í gegnum upptökur úr eftirlitsmyndavélum og í ljós kom að Wall hafði aldrei farið í land á bryggjunni líkt og Madsen hélt fram.

Blóð finnst í bátnum

Í ljós kom að enginn var um borð í kafbátnum, hvorki lífs né liðinn, er hann var hífður upp á yfirborðið. En hins vegar sagðist lögreglan hafa fundið blóð úr Wall í bátnum.

Lögreglan hélt yfirheyrslum áfram og sagði að Madsen hefði loks gefið góða mynd af atburðarásinni og að mögulega væri Wall enn á lífi.

„Við höfum ekki gefið upp vonina,“ sagði Jens Jensen rannsóknarlögreglumaður á blaðamannafundi.

En vonin dofnaði fljótt. Þann 17. ágúst er talið að Wall sé látin og leitinni að henni breytt miðað við þær forsendur. Fjórum dögum síðar segir lögreglan að Madsen hafi viðurkennt að hafa kastað líki hennar fyrir borð. Hann sagðist hafa gert það í kjölfar slyss um borð í bátnum.

Höfuðlaus búkur

Síðar þennan sama dag fann hjólreiðamaður líkamshluta í flæðarmálinu. Um var að ræða höfuðlausan búk. Einnig höfðu hendur og fætur verið skorin eða söguð af.

Staðfest er að búkurinn er hluti af líki Wall nokkrum dögum síðar. Lögreglan sagði frá því að járnhlutir hefðu verið festir við líkið til að reyna að koma í veg fyrir að það myndi fljóta upp á yfirborðið. 

Sænski blaðamaðurinn Kim Wall.
Sænski blaðamaðurinn Kim Wall. AFP

Þann 25. ágúst er gefin út ný ákæra. Og Madsen neitar sök.

Þann 5. september lýsti Madsen því að Wall hefði fengið þungt járnstykki í höfuðið. Hún hafi látist um borð í bátnum. Hann sagði einnig að hann hefði ákveðið að sökkva bátnum í kjölfarið því hann vildi ekki nota hann áfram eftir slysið. Madsen var einnig spurður af blaðamönnum hvort hann stundaði sadó/masókískt kynlíf og svaraði Madsen því til að hann hefði áhuga á fjölbreytni í kynferðislegum efnum.

Myndbönd af morðum

Lögreglan fann myndbönd af raunverulegum morðum í eigu Madsen. Á þeim mátti m.a. sjá pyntingar og dráp á konum. Madsen neitaði að eiga þessar myndir en sagðist hafa haft lærlinga sem notuðu tölvuna.

Lögreglan segir að Madsen hafi afklætt Wall áður en hann drap hana. Hún hafi einnig verið með áverka í móðurlífinu.

Smám saman fóru fleiri líkamshlutar að finnast í sjónum, m.a. höfuð Wall og fætur. Lögreglan sagði að engir áverkar hefðu verið á höfði Wall. Þannig stæðist ekki sú fullyrðing Madsen að hún hefði látist vegna höfuðhöggs.

Sög fannst á hafsbotni

Kafarar fundu síðar sög á hafsbotni. Madsen harðneitaði þó enn að hann hefði bútað lík Wall í sundur. Það gerði hann hins vegar loks 30. október. Þá hafði hann gefið lögreglu þær skýringar að Wall hefði kafnað. Lögmaður hans sagði hins vegar skömmu síðar að Madsen hefði aðeins sagt það kenningu að Wall hefði kafnað.

Þann 29. nóvember fannst svo síðasti hluti líks Wall, hægri handleggur hennar. 

Leitinni lauk formlega 12. janúar. Þá hafði lögreglu ekki tekist að finna farsíma þeirra Wall og Madsen. Endanleg ákæra var gefin út fjórum dögum síðar. Í henni er Madsen sakaður um að hafa ítrekað stungið Wall, m.a. með skrúfjárni og hnífi. Þá er hann einnig sakaður um að hafa lagt á ráðin um morðið.

Réttarhöldin yfir Madsen hefjast á fimmtudag í Kaupmannahöfn. Þau munu standa í 12 daga samkvæmt dagskrá. Dómur verður kveðinn upp 25. apríl. 

Um 100 blaðamenn frá tólf löndum hafa boðað komu sína og ætla að fylgjast með réttarhöldunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert