Fundu virka sprengju úr seinni heimsstyrjöldinni

Sprengjan rúmur metri á lengd og um 225 kíló.
Sprengjan rúmur metri á lengd og um 225 kíló. Mynd/Skjáskot af vef BBC.

Um 23 þúsund manns voru fluttir á brott úr bænum Fano á Ítalíu í gær eftir að ósprungin sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni fannst við uppgröft. Yfirvöld sögðu hættu á að sprengjan spryngi því hún hefði óvart verið gerð virk. BBC greinir frá.

Sjúklingar voru strax fluttir af sjúkrahúsi í grenndinni og lestarsamgöngur stöðvaðar á meðan beðið var eftir því að sprengjusérfræðingar hersins kæmu á staðinn. Skólar verða einnig lokaðir í dag, miðvikudag.

Íbúar í 1,8 kílómetra radíus voru fluttir á brott eftir að í ljós kom hvers eðlis var, en það er um einn þriðji bæjarbúa. Höfnum og flugvöllum var einnig lokað og sagði Massimo Seri, bæjarstjóri Fano, um nauðsynlegar varúðarráðstafanir að ræða því það væri mjög hættuleg aðgerð að fjarlægja sprengjuna.

Sprengjusérfræðingar voru að störfum í alla nótt og tókst snemma í morgun að fjarlægja sprengjuna og hafa íbúar fengið leyfi til að snúa til síns heima. Allar opinberar stofnanir verða þó lokaðar til hádegis.

Sprengjan var um 1,1 metri á lengd og um 225 kíló. Hún fannst á hafnarbakkanum þar sem framkvæmdir höfðu verið við holræsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert