Setja viðskiptabann á bandamenn Pútíns

Álauðkýfingurinn og milljarðamæringurinn Oleg Deripaska er meðal þeirra sem Bandaríkjamenn …
Álauðkýfingurinn og milljarðamæringurinn Oleg Deripaska er meðal þeirra sem Bandaríkjamenn hafa skellt viðskiptabanni á. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt viðskiptabann gegn sjö rússneskum auðmönnum og 17 hátt settum rússneskum embættismönnum sem þau segja standa að illvirkjum víðsvegar um heiminn.

Tólf fyrirtæki í eigu auðmannanna, rússneskur banki og útflytjendur rússneskra vopna eru meðal þeirra sem viðskiptabannið tekur til.

Hefur BBC eftir Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna að aðgerðirnar beinist gegn þeim sem hagnast á spilltu stjórnkerfi Rússlands og eru þær m.a. ætlaðar sem svör við meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum haustið 2016. Aðgerðir Rússa á Krímskaga eru einnig sagðar vera ástæða viðskiptabannsins.

Sakaði Mnuchin rússnesk stjórnvöld um „illvirki“ í netheimum og sagði viðskiptabannið beinast gegn þeim sem „högnuðust á stjórn Pútíns.“

„Rússnesk stjórnvöld starfa til hagsmuna fyrir auðmenn,“ bætti hann við.

Suleiman Kerimov , einn ríkasti maður Rússlands, er einnig á …
Suleiman Kerimov , einn ríkasti maður Rússlands, er einnig á lista bandarískra stjórnvalda. AFP

Segir BBC þetta vera hörðust aðgerðir sem bandarísk stjórnvöld hafa gripið til gegn rússneskum stjórnvöldum frá því að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta.

19 Rússar til viðbótar voru í síðasta mánuði úrskurðaðir í viðskiptabann og voru þeir sakaðir um að hafa haft afskipti af bandarísku forsetakosningunum og fyrir að standa að baki meintum netárásum.

Þá hafa bandarísk stjórnvöld vísað fjölda rússneskra erindreka úr landi vegna taugaeiturárásarinnar á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í Bretlandi í upphafi síðasta mánaðar.

Meðal þeirra sem bættust í dag á lista þeirra sem viðskiptabannið nær til er  álauðkýfingurinn og milljarðamæringurinn Oleg Deripaska, einn kunningja Vladimír Pútins Rússlandsforseta og Paul Manaforts kosningastjóra Trumps.

Suleiman Kerimov, einn ríkasti maður Rússlands er einnig á listanum, en fjölskylda hans á stærsta gullframleiðslu Rússlands Polyus og er hann metinn á um 6,3 milljarða dollara. Kerimov er raunar einnig undir smásjá franskra yfirvalda, en honum var í nóvember á síðasta ári  gert að sæta formlegri rannsókn þar í landi vegna gruns um skattaundanskot.

Þá var Alexander Torshin, hátt settur rússneskur embættismaður sem talinn er tengjast NRA, samtökum byssueigenda í Bandaríkjunum, einnig á listanum, sem og lífvörður Pútíns, tengdasonur hans og yfirmaður öryggisráðs Rússlands.

mbl.is