Sakaður um hryðjuverk í Tyrklandi

Andrew Brunson flutti til Tyrklands árið 1993.
Andrew Brunson flutti til Tyrklands árið 1993. AFP

Bandarískur prestur, sem hefur verið í haldi í tyrknesku fangelsi í meira en eitt og hálft ár, harðneitar sök í máli tengdu hryðjuverkum sem hann hefur verið ákærður fyrir. Réttarhöldin yfir honum hófust í morgun. Málið hefur aukið á spennu milli stjórnvalda í Tyrklandi og Bandaríkjunum. 

Andrew Brunson rak kirkju í borginni Izmir í Tyrklandi. Hann var handtekinn í október árið 2016 og ef hann verður sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér 35 ára fangelsisdóm.

Brunson, sem er altalandi á tyrknesku, mætti til réttarhaldanna í Aliaga, norður af Izmir, í morgun. Til marks um mikilvægi málsins var einnig bandarískur sendiherra viðstaddur upphaf réttarhaldanna sem og öldungadeildarþingmaðurinn Thom Tillis.

Segist hafa beðið fyrir Tyrklandi

„Ég vil að sannleikurinn verði leiddur í ljós. Ég hafna öllum ásökunum sem koma fram í ákærunni. Ég hef ekki komið nálægt ólöglegum verknaði,“ sagði Brunson er hann ávarpaði dóminn í morgun. „Ég hef ekkert gert á hlut Tyrklands. Þvert á móti, ég elska Tyrkland. Ég hef beðið fyrir Tyrklandi í 25 ár.“

Brunson flutti til Tyrklands árið 1993 og stofnaði mótmælendakirkju í Izmir árið 2010. Nokkur þúsund manns eru mótmælendatrúar í Tyrklandi en flestir landsmenn eru súnní-múslimar. 

Samband kristinna safnaða í Tyrklandi segir að mótmælendur verði fyrir miklu aðkasti og áreiti og séu fórnarlömb hatursglæpa. Þá hafi verið á þá ráðist.

Í ákæru tyrkneska saksóknarans segir að Brunson sé grunaður um að hafa tekið þátt í aðgerðum hóps undir forystu Fethullah Gulen, eins helsta andstæðing Erdogans forseta. Hópurinn er sakaður um að hafa reynt að steypa Erdogan af stóli árið 2016.

 Bæði stuðningshópar Gulens sem og Verkamannaflokkur Kúrda (PKK) eru bannaðir í Tyrklandi og flokkaðir sem hryðjuverkahópar. Meðlimir þeirra hafa m.a. verið sakaðir um njósnir.

Neitar tengslum við Gulen

Lögmaður Brunson, Cem Halavurt, segir að verði hann sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér 15 ára dóm fyrir ákveðna þætti sem hann er sakaður um og 20 ár fyrir aðra. Samanlagt gæti fangelsisvistin því orðið um 35 ár. 

Brunson neitar öllum tengslum við hóp Gulens og sagði í morgun í yfirlýsingu sinni: „Það væri móðgun við mín trúarbrögð. Ég er kristinn. Ég myndi ekki ganga til liðs við íslamska hreyfingu.“

Þá þvertók hann einnig fyrir að hafa starfað með Verkamannaflokki Kúrda og sagði það lygi að hann hafi beðið fyrir sjálfstæði Kúrda í Tyrklandi.

Brunson segist ekki hafa haft nokkra vitneskju um valdaránstilraunina sem var gerð þann 15. júlí árið 2016. Hann segist hafa komið til Tyrklands úr fríi frá Bandaríkjunum um viku áður en hún var gerð.

„Það er ekki eitthvað sem sekur maður myndi gera,“ sagði Brunson. 

Eiginkona hans var einnig handtekin í tengslum við málið á sama tíma og Brunson en síðar sleppt úr haldi. Hún var viðstödd upphaf réttarhaldanna í dag. 

Gulen er í sjálfskipaðri útlegð og hefst nú við í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum. Hann hefur alla tíð neitað því að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 61...
Vantar Trampólín
Viltu lostna við Trampólínið þitt, kem og tek það niður ef vill... upp. 8986033...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR Útsala er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur í falleg heimili. Handskornar kristalsljósakrónu...