Dulbjó sig sem fréttamann

Shah Marai, ljósmyndari AFP sem lést í árásinni á milli …
Shah Marai, ljósmyndari AFP sem lést í árásinni á milli tveggja kollega sinna, Massoud Hossaini og Lawrence Bartlett eftir að Hossain vann Pulitzer-verðlaunin árið 2002. AFP

Að minnsta kosti 25 létust, þeirra á meðal fimm fréttamenn, í sjálfsmorðssprengjuárásunum í Kabúl í morgun. Árásarmaður dulbjó sig m.a. sem fréttaljósmyndara til að komast inn á vettvang fyrri árásarinnar. Þar sprengdi hann sig svo í loft upp. Árásirnar voru gerðar í Shashdarak-hverfinu þar sem bandaríska sendiráðið og stjórnarráðsbyggingar er m.a. að finna.

Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í morgun. Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Kabúl og víðar í Afganistan síðustu mánuði. Segir í yfirlýsingu hryðjuverkasamtakanna að árásinni hafi verið beint gegn yfirvöldum í Afganistan.

Fyrri sprengjan sprakk klukkan 8 að staðartíma. 

Fimm fréttamenn sem hröðuðu sér á vettvang fyrri árásarinnar, m.a. ljósmyndari AFP-fréttastofunnar, létust er síðari sprengjan sprakk.

Ljósmyndari og fréttamaður hjá Reuters-fréttastofunni, sem staddur er í Afganistan, sagði í viðtali við CNN að sú staðreynd að árásarmaðurinn dulbjó sig sem ljósmyndara, geti dregið dilk á eftir sér fyrir fjölmiðlafólk að störfum á stríðshrjáðum svæðum. Sagði hann að myndavélin væri oft eins og auðkenni fyrir fjölmiðlamenn, þannig fengju þeir aðgang að svæðum sem almenningur fær ekki. 

Shah Marai hóf feril sinn hjá AFP-fréttastofunni sem bílstjóri árið 1996 en það ár rændu talibanar völdum í Afganistan. Árið 2002 var hann orðinn ljósmyndari í fullu starfi og smám saman vann hann sig upp og var orðinn yfirmaður ljósmyndadeildar AFP í Afganistan. Hann lætur eftir sig sex börn, þeirra á meðal nýfædda dóttur.

45 særðust í árásunum og voru fluttir á sjúkrahús, að því er fram kemur í frétt CNN. Þar kemur fram að árásarstaðurinn sé skammt frá höfuðstöðvum NATO í Kabúl sem og forsetahöllinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert