Risavaxin hola myndaðist við kúabú

Risavaxin hola sem myndaðist á landareign bónda á Norður-Eyju Nýja-Sjálands hefur vakið athygli eldfjallafræðinga. Holan er um 20 metra djúp og 200 metra löng og ofan í henni má sjá inn í 60 þúsund ára gamalt eldfjall.

Holan stóra myndaðist nýverið í kjölfar mikill rigninga í nágrenni bæjarins Rotorua. Sérfræðingar telja að regnvatnið hafi leyst upp kalkstein undir jarðveginum sem varð svo á endanum til þess að efsta lag jarðvegsins rofnaði og hið stóra gil myndaðist. 

Eldfjallafræðingurinn Brad Scott segir hér fágætan atburð á ferðinni. Gjáin hafi myndast við kúabú sem standi ofan á löngu kulnuðu eldfjalli.

Bóndinn Colin Tremain segir starfsmenn sína hafa tekið eftir holunni snemma morguns í síðustu viku. Hann segir holur víða að finna á landareign sinni en þessi sé sú stærsta. Hann segist ætla að girða umhverfis holuna. Of mikið mál sé að fylla hana af sandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert