Anwar óvænt náðaður

Konungur Malasíu hefur samþykkt að veita Anwar Ibrahim sakaruppgjöf sem tekur gildi samstundis, segir nýr forsætisráðherra landsins. Þykir þetta benda til þess að Anwar Ibrahim, sem hefur setið í fangelsi  frá árinu 2015 fyrir samkynhneigð, verði næsti forsætisráðherra landsins. 

Mohamad Mahathir sór í gær embættiseið sem forsætisráðherra Malasíu eftir að kosningabandalag stjórnarandstöðuflokka, sem hann fór fyrir, vann óvæntan kosningasigur um helgina. Mahathir varð þar með elsti þjóðarleiðtogi heims en hann er 92 ára að aldri.

Mahathir var áður leiðtogi flokkabandalags, sem fór með völd í Malasíu frá árinu 1957, þegar landið fékk sjálfstæði, þar til í gær. Hann var sjálfur forsætisráðherra í 22 ár og stýrði landinu með harðri hendi en tókst jafnframt að gerbylta lífskjörum íbúa landsins. Mahathir lét sjálfviljugur af embætti árið 2003 en féllst á að verða forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna eftir að Najib Razak, fráfarandi forsætisráðherra, flæktist í umfangsmikið spillingarmál.

Mahathir hafði áður sagt að hann myndi væntanlega verða forsætisráðherra í tvö eða þrjú ár er þá myndi Anwar taka við stjórnartaumunum. 

Mahathir rak Anwar úr embætti aðstoðarforsætisráðherra árið 1998 og í kjölfarið var hann dæmdur í níu ára fangelsi fyrir samkynhneigð og spillingu. Anwar var á þeim tíma talinn líklegastur til að verða forsætisráðherra. Anwar var látinn laus árið 2004 en dæmdur að nýju árið 2015 í fimm ára fangelsi fyrir samkynhneigð í kjölfar mikils kosningasigurs stjórnarandstöðuflokkanna árið 2013. Láta átti hann lausan úr fangelsi í næsta mánuði.

Með konunglegri náðun getur Anwar snúið strax aftur í stjórnmálin en að öðrum kosti mætti hann ekki hafa afskipti af stjórnmálum í fimm ár. Anwar, sem er sjötugur að aldri, er á sjúkrahúsi þar sem hann er í meðferð vegna axlarmeiðsla. 

Mahathir tilkynnti einnig í dag að upplýst yrði um tíu ráðherra á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert