Rannsaka bakgrunn árásarmannsins

Sérfræðingar franskra stjórnvalda rannsaka nú bakgrunn tvítugs manns, Khamzat Azimov, sem drap einn og særði fjóra í hnífaárás í miðborg Parísar í gærkvöldi. Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að hann hafi verið á lista yfirvalda yfir grunaða öfgasinna sem gætu framið ódæðisverk.

Árásin var gerð í hverfinu í kringum Óperuna. Alls hafa 245 látist í árásum vígamanna í Frakklandi á þremur árum. Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu eftir að ekki tókst að stöðva hann með rafbyssu.

Maðurinn er fæddur í Tsjetsjeníu, sjálfstjórnarhéraði í Rússlandi þar sem múslímar eru í meirihluta. Ítrekað hefur komið til vopnaðra átaka í héraðinu. Hundruð íslamista hafa farið þaðan til þess að starfa með hryðjuverkahópum í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og víðar á undanförnum árum.

Í rússneskum fjölmiðlum kemur fram að rússneska sendiráðið í París þrýsti mjög á að fá frekari upplýsingar um árásamanninn en foreldrar hans eru í haldi lögreglu þar sem þau eru yfirheyrð. Ekki hefur komið fram hvenær ungi maðurinn kom til Frakklands en heimildir Le Monde herma að hann hafi fengið franskan ríkisborgararétt árið 2010. Khamzat Azimov fæddist í nóvember 1997.

Svo virðist sem hann hafi valið fórnarlömb sín af handahópi og farið á milli veitingastaða við rue Monsigny sem er einstefnugata. Fólk sem sat úti við á veitingastöðum og kaffihúsum flúði inn á staðina og faldi sig undir borðum á meðan einhverjir gestir komu í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist inn. Gríðarleg skelfing greip um sig meðal fólks enda árásin í nóvember 2015 þar sem 130 gestir á veitingastöðum og tónleikum voru drepnir, ofarlega í huga Parísarbúa. 

Vitni segja að Azimov hafi hrópað á lögreglu: Skjótið mig ég mun ná ykkur en á meðan hann framdi árásina ákallaði hann guð. Líkt og yfirleitt hefur Ríki íslams lýst ábyrgð á árásinni en samband múslíma í Frakklandi hefur fordæmt árásina. 

Hassen Chalghoumi, formaður sambands múslímaklerka í Frakklandi, segir að árásin minni enn á  ný hvernig vígamenn ráðast gegn lýðræðinu, frelsinu og öryggi fólks.

Tsjet­sjénía hefur verið áberandi þegar kemur að hryðjuverkum í heiminum undanfarin ár en útlaginn Akhmed Zakajev, sem var drepinn í fyrra, er talinn hafa staðið á bak við árás sem gerð var á flugvellinum í Istanbul og kostaði 45 manns lífið. Tyrknesk yfirvöld segja að árásin hafi verið gerð af sjálfsvígsárásarmanni af svæðinu en eins af vígamönnum frá Úsbekistan og Kyrgyzstan, ríkjum í Mið-Asíu sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. 

Úsbekinn Abdulkadir Masharipov játaði að hafa skotið til bana 39 manns í næturklúbbi í Istanbúl á nýársnótt fyrir rúmu ári. Eins er Dzhokhar Tsarnaev, sem gerði árásina á Boston maraþonið, fæddur í Kyrgyztan. Farðir hans var frá Tsjet­sjen­íu og móðir hans var frá Dagestan.

mbl.is