Tíu börn fjarlægð af heimili sínu

Jonathan Allen og Ina Rogers
Jonathan Allen og Ina Rogers Lögreglan í Solano

Tíu börn hafa verið fjarlægð af heimili sínu í Norður-Kaliforníu en að sögn lögreglu höfðu börnin verið pyntuð og búið við hryllilegar aðstæður.

Í frétt Washington Post kemur fram að rannsókn málsins hafi staðið yfir frá 31. mars þegar lögregla fór með tólf ára gamlan strák, sem tilkynnt hafði verið um að væri saknað, heim til sín í Fairfield. Drengurinn fannst sofandi undir runna í garði skammt frá heimili sínu. 

Þegar lögreglan kom á heimili móður drengsins, Ina Rogers, kom í ljós að níu önnur börn hennar, á aldrinum fjögurra mánaða til 11 ára, bjuggu við óheilnæmar og hættulegar aðstæður. Börnin voru tekin af heimilinu og sett í umsjón barnaverndar í Solano-sýslu. Síðan hefur þeim verið komið fyrir hjá ættingjum, segir í frétt WP. 

Móðir barnanna, Rogers, sem er þrítug að aldri, var handtekin aðfararnótt 31. mars og er í gæsluvarðhaldi í sýslufangelsi Solano. Á föstudaginn var síðan Jonathan Allen, sem er 29 ára gamall og faðir meirihluta barnanna að sögn Rogers, handtekinn og ákærður fyrir pyntingar og ofbeldi gagnvart börnum.

Lögreglan greindi frá málinu í fyrsta skipti í gær og þar lýsti hún skelfilegum aðstæðum á heimili fjölskyldunnar. Nágrannar eru í áfalli að sögn bandarískra fjölmiðla og segjast ekki hafa haft hugmynd um að tíu börn byggju í húsinu. 

Rusl, þvag, skemmdur matur út um allt á gólfum hússins. Ruslahaugar á víð og dreif og girðingar til þess að loka börn af og dýr. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að börnin hafi ekki aðeins búið við óþrifnað heldur hafi verið þau beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi. 

Á þeim sex vikum sem liðin eru frá handtöku móður þeirra hafa átta elstu börnin lýst ofbeldi sem þau hafa búið við undanfarin fjögur ár. Meðal áverka sem þau eru með eru brunasár, áverka eftir skot úr loftbyssum og stungur. 

Vegna vitnisburðar barnanna var handtökuskipun gefin út á hendur Allen fyrir hans aðild að ofbeldinu. Hann var leiddur fyrir dómara í gær og sagðist saklaus af öllum ákæruliðum. 

Sharon Henry, yfirsaksóknari í Solano-sýslu, segir að ofbeldið gagnvart börnunum hafi verið beitt vegna kvalalosta foreldranna. „Byggt á því sem börnin hafa sagt í viðtölum þá teljum við að pyntingum hafi verið beitt í þessu húsi,“ sagði hann á blaðamannafundi í gær.

Lögreglustjórinn í Fairfield, Greg Hurlbut, segir að börnin séu á batavegi og að hann hafi aldrei á sínum langa starfsferli innan lögreglunnar upplifað slíkan hrylling og börnin bjuggu við. „Við erum að ákæra fólk fyrir pyntingar á eigin börnum. Ef það útskýrir málið betur.“

Rogers, sem var látin laus gegn 10 þúsund Bandaríkjadala tryggingu, bauð fréttamönnum upp á skoðunarferð um heimilið. Hún segir að hún og eiginmaður hennar komi bæði frá brotnum heimilum og hafi viljað eignast stóra fjölskyldu. Að sögn Rogers er hún heilbrigðisstarfsmaður og Allen er húðflúrmeistari. Börnin gengu ekki í skóla heldur voru í heimaskóla.

Hún segist hafa orðið fyrst þunguð þegar hún var 16 ára gömul og hún hafi eignast 11 örn. Allen, sem Rogers kynntist fyrir 10 árum, er faðir átta barnanna. 

Frétt Washington Post

Frétt Los Angeles Times

Frétt CBS

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert