„Linur“ dómari rekinn

Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn. Hann var …
Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn. Hann var dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga rænulausri konu á bak við ruslagám.

Dómari í Bandaríkjunum, sem var harðlega gagnrýndur fyrir linkind sem hann sýndi í garð nauðgarans Brock Turner fyrir tveimur árum, hefur verið vikið úr embætti eftir kosningu.

Aaron Persky dæmdi Turner í hálfs árs fangelsi en hann nauðgaði meðvitundarlausri konu árið 2015. Ákæruvaldið hafði farið fram á sex ára fangelsi yfir honum en Persky sagðist við dóms­upp­kvaðningu hafa áhyggj­ur af því hvaða áhrif fang­els­is­dvöl­in hefði á Turner.

Ríkisdómarar í Kaliforníu eru kosnir til embætta sinna og ef nógu margir skrifa undir beiðni þess efnis að þeir skuli reknir úr starfi verður kosið um málið.

Slíkar kosningar eru afar sjaldgæfar en þetta er í fyrsta skipti sem dómara í Kaliforníu er vikið úr embætti á þennan átt í meira en 80 ár.

„Aðgerðir hans eru svívirðilegar. Við viljum ekki tala um þær, við viljum losna við hann,“ kom fram frá hópi fólks sem barðist fyrir því að kosið yrði um hæfni Persky sem dómara.

Sjálfur lét Persky nýlega hafa eftir sér að hann sæi ekki eftir neinu í tengslum við mál Turner.

Turner var ákærður eft­ir að tveir fyrr­ver­andi nem­end­ur við Stan­ford-há­skóla urðu vitni að kyn­ferðis­brot­inu í janú­ar árið 2015 þegar þeir voru á hjól­um sín­um skammt frá skól­an­um. Turner var 19 ára á þess­um tíma.

Hann var fund­inn sek­ur í þrem­ur ákæru­liðum í maí 2016. Turner afplánaði dóm­inn í fang­elsi Santa Cl­ara-sýslu í Kali­forn­íu. Í Kali­forn­íu afplána fang­ar venju­lega helm­ing refs­ing­ar sinn­ar og var hann því látinn laus eftir þriggja mánaða fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert