Grátandi börn í búrum

AFP

„Við erum með hljómsveit hér. Það eina sem vantar er hljómsveitarstjórinn,” heyrist landamæravörður segja á hljóðupptöku sem birt er á bandaríska fréttavefnum Pro Publica í gær. Hljóðupptakan er af börnum sem hafa verið aðskilin frá foreldum sínum við komuna til Bandaríkjanna. Börnin, sem meðal annars eru geymd í búrum,  gráta og biðja um foreldra sína. Um er að ræða fólk á flótta (migrants) en það eru þeir sem ekki falla undir skilgreiningu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á flóttafólki (refugees), sem hafa verið stöðvaðir á landamærum Bandaríkjanna undanfarnar vikur.

Í maí var tilkynnt um að fólki sem reyndi að komast til Bandaríkjanna með ólögmætum hætti yrði ekki sýnt neitt umburðarlyndi en margir þeirra ætla sér að sækja um hæli í Bandaríkjunum. Fólk er fangelsað og á yfir höfði sér saksókn.

Ætlar ekki að breyta Bandaríkjunum í flóttamannabúðir

Á rúmlega sex vikum hafa um tvö þúsund börn þannig verið aðskilin frá foreldrum sínum á landamærunum. Þeim komið fyrir í sérstökum búðum/móttökumiðstöðvum á vegum stjórnvalda (Department of Health and Human Services) og þaðan eru þau send til ættingja eða í fóstur. Vegna þess hve mörg börnin eru þá eru öll úrræði orðin yfirfull og því hluti barnanna geymd í einskonar búrum.Þrátt fyrir harða andstöðu mannúðarsamstaka segir forseti Bandaríkjanna,Donald Trump, að ekki verði kvikað frá þessari stefnu enda ætlar Trump sér ekki að breyta Bandaríkjunum í flóttamannabúðir.

AFP

Yfirmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi, segir stefnu Bandaríkjanna óásættanlega og framkvæmdastýra UNICEF, Henrietta Fore, segir að sögur af börnum, í sumum tilvikum smábörnum, sem hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum þegar þau leita að öryggi í Bandaríkjunum séu átakanlegar.

Á hljóðupptökunni sem meðal annars var spiluð fyrir bandaríska þingmenn, má heyra börn á aldrinum fjögurra til tíu ára frá ríkjum Mið-Ameríku, snökta og veina eftir foreldrum sínum.

„Börn, sama hvaðan þau koma eða hver staða þeirra er sem flóttamenn, eru fyrst og fremst börn. Þau,sem eiga ekki annarra úrkosta völ en að flýja heimili sín, eiga rétt á vernd, fá nauðsynlega þjónustu og að vera með fjölskyldum sínum líkt og öll önnur börn,“ segir í yfirlýsingu frá UNICEF.

Mann­rétt­inda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, Zeid Ra'ad Al Hus­sein, sagði í gær að slíkur aðskilnaður gæti haft varanleg áhrif á börn og Fore segir að börn sem verða fyrir þessari reynslu sé hættara við að lenda í ánauð og að vera misnotuð.

Áratugum saman hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna sem og bandaríska þjóðin stutt við bakið á hjálparsamtökum við að veita börnum á flótta aðstoð. Hvort sem það er á stríðshrjáðum svæðum eins og Sýrlandi og Suður-Súdan, þar sem hungursneyð ríkir eins og í Sómalíu eða á jarðskjálftasvæðum á Haítí, segir í yfirlýsingu frá UNICEF.

Búðir sem börn eru geymd í á landamærum Bandaríkjanna.
Búðir sem börn eru geymd í á landamærum Bandaríkjanna. AFP

Bannað að snerta börnin

Fjölmiðlar víða um heim, ekki síst bandarískir, hafa greint frá skelfilegum aðstæðum og síðast en ekki síst angist barna sem rifin hafa verið frá foreldrum sínum. Börn sem eru svo lítil að ekki er hægt að útskýra fyrir þeim að þetta sé samkvæmt lögum fyrirheitna landsins.

Washington Post heimsótti athvarf í Texas á landamærum Mexíkó í vikunni en þar eru rúm fyrir 60 börn og leikaðstaða. Í herbergjunum eru leikföng, bækur og litir. Í raun fremur vinalegur staður sem börnum ætti að geta liðið vel. En raunin er önnur. Fyrsta barnið sem þau sjá er tveggja ára gömul stúlka sem lá grátandi á dýnu.

Starfsmaður reynir að færa henni leikföng og bækur og að róa hana niður án árangurs. Enda mega starfsmennirnir ekki snerta börnin, þeir mega ekki taka litlu stúlkuna upp og reyna að hugga hana, segir í frétt WP.

Þingmenn sem hafa heimsótt athvörf fyrir börn/móttökumiðstöðvar á landamærunum eru margir slegnir enda ekki vanir því að börn séu geymd í búrum. Aðstaða sem minnir frekar á athvarf fyrir hunda.

AFP

New York Times hefur fjallað mikið um aðstæður fólks á flótta að undanförnu og meðal annars sagt sögu konu frá Gvatemala, Elsa Johana Ortiz Enriquez, sem pakkaði því litla sem hún átti og ferðaðist í gegnum Mexíkó ásamt átta ára gömlum syni sínum, Anthony, í maí. Ætlunin var að komast til Bandaríkjanna þar sem unnusti hennar, Edgar, hafði fengið byggingarvinnu.

En allt fór á annan veg en áætlað var. Þegar hópurinn sem mæðginin voru með á flóttanum kom yfir landamæri Bandaríkjanna biðu þeirra landamæraverðir.

Mæðginin voru flutt í fangabúðir í suðurhluta Texas og þaðan var Anthony rifinn frá móður sinni og sendur í athvarf fyrir flóttabörn. Hún var aftur á móti sett upp í næstu flugvél til Gvatemala.

Ortiz, sem er 25 ára gömul, ræddi við New York Times í myndsímtali og full örvæntingar segist hún ekki vita hvort hún muni nokkurn tíma aftur hitta barnið sitt. Henni hefur enn ekki tekist að ná sambandi við hann frá því þau voru skilin að 26. maí.

AFP

Þrátt fyrir beiðni yfirmanna stofnana Sameinuðu þjóðanna um að breyta um stefnu, en Bandaríkin eru eina ríki SÞ sem ekki hefur fullgilt Barnasáttmála SÞ, þá stendur Trump fastur á sínu. „Bandaríkjunum verði ekki breytt í flóttamannabúðir. Sjáið hvað er að gerast í Evrópu. Þið sjáið hvað er að gerast annars staðar. Við getum ekki leyft þessu að gerast fyrir Bandaríkin. Ekki á minni vakt,” segir forseti Bandaríkjanna.

Ríki flóttamanna og innflytjenda

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi er einn þeirra sem fordæmir aðskilnað barna frá fjölskyldum sínum á landamærum Bandaríkjanna harðlega. „Slíkar aðgerðir og sá aðbúnaður sem birtist okkur í fréttum er með öllu ómannúðlegar og getur skaðað börn fyrir lífstíð. Barn er fyrst og fremst barn, hverjar svo sem aðstæður hans eða hennar eru. Að vista börn í búrum og með ókunnugum er skýrt brot á mannréttindum þeirra. Bandaríkin eru ríki flóttamanna og innflytjenda og það er sárara en tárum taki að horfa upp á aðgerðir stjórnvalda nú.“

AFP

Trump, sem er repúblikani, sakar demókrata um að bera ábyrgð á stöðunni sem er komin upp þar sem þeir hafi neitað að setjast að samningaborðinu varðandi nýja innflytjendalöggjöf.

En þrátt fyrir að margir gagnrýni stefnu forsetans í mörgum málum þá nýtur hann stuðnings 45% bandarísku þjóðarinnar samkvæmt nýlegri könnun Gallup. Það er 45% eru ánægðir með störf hans í embætti forseta. 

En fólk hættir ekki að flýja líkt og nýjar tölur UNHCR sýna. Rúmlega 16 milljónir hröktust að heiman á síðasta ári og alls eru 68,5 milljónir jarðarbúa á vergangi.

Nú þegar eru stjórnendur athvarfa sem hýsa börn sem hafa verið tekin frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna farnir að segja að athvörfin séu að verða yfirfull. Hundruð barna er haldið í vöruhúsum og húsnæði sem áður hýsti verslun með matvöru og aðra dagvöru. Í Texas hefur verið tekin ákvörðun um að reisa tjaldbúðir sem geta hýst hundruð barna í eyðimörk Texas þar sem hitinn fer reglulega yfir 40 gráður.

AFP

Eins og hér kom fram að framan þá er ýmsum nóg boðið. Þar á meðal forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump sem sagði á sunnudag  að það væri hræðilegt að sjá börn skilin frá fjölskyldum sínum.

Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Laura Bush, skrifaði grein í  Washington Post þar sem hún sagði aðgerðir yfirvalda siðlausar og minntu á fangabúðir í seinni heimstyrjöldinni.

Flestir þingmenn repúblikana virðast standa með Trump í málinu og í gær varði Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, stefnu stjórnvalda. Hún segir að þau séu einfaldlega að fylgja lögum og það sé í höndum þingsins að breyta þeim. Að foreldrar sem reyndu að fara með börn sín með ólöglegum hætti yfir landamærin til Bandaríkjanna settu sjálf börn sín í hættulegar aðstæður. 

Geta verið morðingjar

„Þau geta verið morðingjar eða þjóðar og svo miklu meira,“ sagði Trump í gær um fólk sem reynir að fara yfir landamærin. „Við viljum að landið okkar sé öruggt og það byrjar á landamærunum og þannig er það.“

Nielsen sagði á miklum hitafundi með fjölmiðlum í Hvíta húsinu í gær að vel væri hugsað um börnin en samt svaraði hún ekki spurningum fréttamanna um hvar börnin væru til húsa né heldur hafði hún séð myndir af börnum í búrum né heldur hafði hún heyrt hljóðupptökuna sem Pro Publica birti úr slíku athvarfi.

Ekkert kveðið á um aðskilnað foreldra og barna í lögum

Eftir síðustu ummæli Trump hafa borist fréttir af vaxandi óánægju þingmanna úr röðum repúblikana. Þar á meðal Steve Stivers fulltrúardeildarþingmanni frá Ohio sem varaði við því að ef ekki væri breytt um stefnu þá myndi hann styðja aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að börn væru skilin frá foreldrum sínum.

Fred Upton, þingmaður repúblikana frá Michigan, segir aðskilnaðinn ómannúðlegan og hætta verði strax að beita þessum aðferðum. Mario Diaz-Balart, þingmaður repúblikana frá Flórída segir þetta algjörlega óásættanlegt og í svipaðan streng tekur Mia Love þingmaður frá Utah. 

„Sem þriggja barna móðir og dóttir innflytjenda þá stendur þetta mér nærri og veldur mér hugarangri,“ segir Love og bætir við að þetta sé ekki spurning um flokkspólitík heldur hvað sé rétt eða rangt.

Síðar í dag mun Trump ávarpa þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni sem munu greiða atkvæði um tvö frumvörp sem snúa að innflytjendum. En það sem virðist gleymast í allri þessari umræðu er að það er hvergi kveðið á um aðskilnað barna frá foreldrum sínum í bandarískum lögum. Aftur á móti megi halda þeim í stuttan tíma í innflytjendabúðum. Ekkert er kveðið á um að þau séu tekin frá foreldrum sínum. 

Lög 

Staðreyndatékk NYT

Frétt um lög sett 2008

BBC

New York Times

ProPublica

New York Times

Washington Post

Esquire

Marshall Project

CNN

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert