Kröpp beygja viðbúin í Hæstarétti

Trump leitar nú eftirmanns hæstaréttardómarans Kennedy.
Trump leitar nú eftirmanns hæstaréttardómarans Kennedy. AFP

Afsögn Anthony Kennedy, dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna mun að líkindum hafa mikið að segja um lagatúlkun dómara við Hæstarétti Bandaríkjanna. Donald Trump, Bandaríkjaforseta, gefst nú færi á því að skipa dómara að sínu skapi og hefur hann lofað því að eftirmaður Kennedy verði úr hópi 25 lögfræðinga sem allir eru taldir íhaldssamir í túlkun sinni.

„Það hefur verið mesti heiður og forréttindi að þjóna bandarísku þjóðinni innan réttarkerfisins í 43 ár og þar af í 30 ár í Hæstarétti,“ sagði í tilkynningu Kennedy þar sem hann tilkynnti um ákvörðun sína, en hann lætur af störfum sökum hás aldurs. Verður hann 82 ára gamall í næsta mánuði og tekur afsögnin gildi 31. júlí nk.

Af mörgum talinn vogarás réttarins

Kennedy var skipaður af Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna og hefur af mörgum verið talinn vogarás réttarins, þrátt fyrir að hafa verið skipaður af forseta úr Repúblikanaflokknum. Þannig hefur hann lagst á sveif með frjálslyndari armi Hæstaréttar og atkvæði hans ráðið úrslitum í nokkrum ágreiningsmálum gegnum tíðina, t.d. þegar rétturinn veitti frumvarpi um rétt samkynhneigðra og transfólks til hjónabands, blessun sína.

Hæstiréttur Bandaríkjanna er fer með æðsta dómsvald í Bandaríkjunum og lokaákvörðunarvald um stærstu álitaefni bandarísks réttar. Rétturinn fæst til dæmis við mál er varða réttindi til að eiga og bera skotvopn, réttindi minnihlutahópa, dauðarefsingar og fóstureyðingar. Í þessari viku staðfesti rétturinn ferðabann Bandaríkjaforseta sem meinar stærstum hluta fólks frá Íran, Líbanon, Sómalíu, Sýrlandi og Jemen að koma til Bandaríkjanna og staðfesti nýlega rétt bandarísks bakara til þess að neita að baka brúðartertu fyrir samkynhneigt par.

Anthony Kennedy, fyrir miðju, hyggst njóta elliáranna með fjölskyldu sinni ...
Anthony Kennedy, fyrir miðju, hyggst njóta elliáranna með fjölskyldu sinni eftir 30 ára setu í Hæstarétti Bandaríkjanna. AFP

Dómarar réttarins eru allir skipaðir til æviloka, en geta farið á eftirlaun þegar þeir verða 70 ára. Að meðaltali hafa dómarar réttarins setið í um fimmtán ár og Bandaríkjaforseti skipað nýjan dómara á u.þ.b. tveggja ára fresti.

Sitjandi dómarar réttarins sem taldir eru frjálslyndir og voru skipaðir af forsetum úr Demókrataflokknum eru Ruth Bader Ginsburg, 85 ára, Sonia Sotomayor, 64 ára, Elena Kagan, 58 ára og Stephen Breyer, 79 ára. Íhaldssamari dómarar, skipaðir af forsetum úr Repúblikanaflokknum eru John Roberts, 63 ára, Samuel Alito, 68 ára, Clarence Thomas, 70 ára og Neil Gorsuch, 50 ára, sem fyllti í skarð Antonin Scalia sem lést árið 2016.

Þingmenn tókust fast á um skipun næsta dómara

Skipanir dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna eru iðulega þrætuepli milli Repúblíkanaflokksins og Demókrataflokksins, en hver dómari þarf að hljóta náð fyrir hæfisnefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings og samþykki öldungadeildarinnar sjálfrar. Í kjölfar tilkynningar Kennedy hefur í kolunum í öldungadeild bandaríska þingsins og þingmenn tekist fast á.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana, lýsti því yfir að eftirmaður Kennedy ...
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana, lýsti því yfir að eftirmaður Kennedy yrði valinn í haustbyrjun. AFP

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríska þingsins, lýsti því yfir í gær að kosið yrði um tillögu Trump að nýjum dómara í haustbyrjun. Völdin í öldungadeildinni liggja nú hjá Repúblikönum, en þingkosningar fara fram í nóvember.

Demókratar þrýsta á Repúblikana í öldungadeildinni að bíða með val á eftirmanni Kennedy fram yfir kosningarnar og í ræðu sinni í þinginu í gær nefndi Chuck Schumer, þingmaður Demókrata, að ákvörðun um eftirmann Kennedy muni hafa áhrif á komandi kynslóðir um árabil.

„Repúblikanar ættu að fylgja því fordæmi sem þeir mæltu fyrir árið 2016 og skipa ekki nýjan dómara á sama ári og kosningar fara fram,“ sagði hann og vísaði til þess þegar öldungadeildarþingmenn Repúblikana komu í veg fyrir að Barack Obama skipaði Merrick Garland í dómarastól eftir að Antonin Scalia lést. „Ef þeir fara á bak orða sinna verður hámarki hræsninnar náð,“ sagði hann.

Repúblikanar bentu á það á móti að forsetar Demókrata hefðu áður skipað dómara í embætti á kosningaári, Elenu Kagan árið 2010, Stephen G. Breyer árið 1994 og David H. Souter árið 1990.

Trump hafi beðið í ofvæni eftir afsögninni

Trump hefur lýst því yfir að eftirmaður Kennedy verði valinn af lista 25 lögfræðinga sem hann notaðist við þegar Neil Gorsuch var skipaður í febrúar á síðasta ári. Allir sem á listanum eru teljast íhaldsmenn.

Í frétt New York Times eru Trump og stuðningsmenn hans sagðir hafa beðið í ofvæni eftir afsögn Kennedy svo skipa megi nýjan dómara, áður en Demókratar eiga þess kost að ná völdum öldungadeildinni í nóvember.

Lýsti forsetinn því yfir í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakjörið 2016 að með skipun tveggja til þriggja nýrra dómara mætti snúa við niðurstöðu réttarins í máli Roe gegn Wade yrði snúið, en með málinu voru fóstureyðingar lögleiddar í Bandaríkjunum. Trump sagði að þetta væri ætlun sín á kjörtímabilinu og standa líkur til þess að áherslur réttarins í enn fleiri félagslegum málefnum muni taka miklum breytingum í átt til meiri íhaldssemi.

Frjálslynd öfl í Bandaríkjunum, með Demókrataflokkinn fremstan í flokki, hafa lýst miklum áhyggjum af þróun mála og beita sér af öllum mætti til að koma í veg fyrir að Trump takist ætlunarverkið. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Vetrardekk
Til sölu 4stk hálfslitin vetrardekk,205/55 R16... Verð kr 12000.,,Sími 8986048....
NOTAÐ&NÝTT
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við Byko. Mikið úrval af fallegum ...
VW POLO
TIL SÖLU VW POLO 1400, ÁRG. 2011, EK. 93Þ., HVÍTUR AÐ LIT. BENSÍN, BEINSKIPTUR. ...