Björgunarmenn bíða enn færis

Sjúkrabílar eru komnir á vettvang við hellinn.
Sjúkrabílar eru komnir á vettvang við hellinn. AFP

Hópur kafara er í startholunum að halda áfram björgun drengjanna og fótboltaþjálfara þeirra út úr Tham Luang-hellinum á Taílandi. Enn er verið að meta stöðuna þar sem mikil rigning vofir yfir.

Eftir að tekist hafði að bjarga fjórum drengjum úr hellinum í gær var aðgerðum frestað í nótt þar sem súrefnisbirgðir kafaranna voru á þrotum. Fylla þurfti á hundruð súrefniskúta til verksins. Í morgun hafa að minnsta kosti sjö sjúkrabílar ekið að hellinum sem þykir til marks um það að björgunaraðgerðum verði haldið áfram í dag en ekkert hefur verið gefið opinberlega út um það, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC.

Er stytti upp í gær sættu kafarar færis og fóru inn í hellinn til að sækja þá drengi sem talið var að þyrftu mest á því að halda að komast undir læknishendur. Tveir kafarar fylgdu hverjum dreng út í gegnum þröng göngin, um fjögurra kílómetra leið. Á löngum hlutum hennar þurftu þeir að kafa.

Kafari á leið inn í hellinn.
Kafari á leið inn í hellinn. AFP

Í nótt hefur rignt á svæðinu sem er í norðurhluta Taílands og von er á frekari úrkomu næstu daga enda regntímabilið að hefjast. 

Níutíu þaulreyndir kafarar koma að björgunaraðgerðinni. Fjörutíu þeirra eru taílenskir en fimmtíu eru frá öðrum löndum. Leiðin er löng og ströng, jafnvel fyrir mjög vana kafara. Það þarf að vaða, klifra og kafa. Kafararnir tveir halda á súrefnistönkum drengjanna á leið út til að auðvelda þeim förina en göngin eru svo þröng á vissum stöðum að ekki er hægt að fara í gegnum þau með kúta á bakinu.

Drengirnir fjórir sem bjargað var út úr hellinum í gær voru fluttir rakleiðis á sjúkrahús.

Drengirnir eru á aldrinum 11-17 ára. Þjálfari þeirra er 25 ára gamall. Þeir fóru inn í hellinn eftir knattspyrnuæfingu á laugardag fyrir rúmlega tveimur vikum. Þar urðu þeir innlyksa vegna rigninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert