Fangar hakka sig inn í hugbúnað fangelsisyfirvalda

Fangar fá spjaldtölvur frá JPay til að hlaða niður tónlist, …
Fangar fá spjaldtölvur frá JPay til að hlaða niður tónlist, millifæra pening og hafa samskipti við fjölskyldumeðlimi. Skjáskot

Rúmlega 350 fangar í Idaho í Bandaríkjunum hafa stundað það að hakka sig inn í hugbúnað fangelsisyfirvalda í því skyni að auka fjárhæðir á reikningum sínum. Fangarnir náðu að auka innistæður á reikningum sínum um tæplega 24 milljónir króna. BBC greinir frá þessu.

Fangelsisyfirvöld í Idaho nota kerfi frá bandaríska fyrirtækinu JPay til að halda utan um innistæðukerfi fanga sem dvelja í fangelsum í ríkinu. Kerfið nota fangarnir til að ná í tölvuleiki og tónlist, millifæra fjármagn og hafa samskipti við fjölskyldumeðlimi með aðstoð spjaldtölvu frá JPay.

Veikleiki í kerfinu gerði föngum kleift að auka fjárhæðir á reikningum sínum eða í það minnsta láta það líta þannig út. Engar raunverulegar fjárhæðir voru færðar af öðrum reikningum, einstaklinga eða stofnana, inn á reikninga fanganna. Talsmaður fangelsisyfirvalda sagði að skattfé almennings hafi ekki verið fært inn á reikningana.

„Færslur fanganna voru framkvæmdar með ásetningi. Þær kröfðust þekkingu á JPay kerfinu og ýmissa aðgerða til að nýta sér veikleika kerfisins,“ sagði Jeff Ray talsmaður fangelsisyfirvalda í Idaho.

Búið er að laga veikleikann í kerfinu en ekki hefur verið gefið upp hvernig fangarnir fóru að því að auka fjárhæðir á reikningunum. JPay hefur náð að endurheimta rúmlega tæplega 7 milljónir króna af heildarfjárhæðinni.

Fangarnir sem tóku þátt í aðgerðunum geta ekki náð í tónlist eða tölvuleiki í gegnum kerfið fyrr en þeir endurgreiða fyrirtækinu að fullu. Þeir geta þó enn sent og tekið við tölvupóstum. Þeir eiga þó á hættu á að missa frekari fríðindi og gætu sætt strangari öryggisgæslu í framtíðinni.

Fangarnir nýttu sér veikleika í JPay kerfinu til að auka …
Fangarnir nýttu sér veikleika í JPay kerfinu til að auka fjárhæðir reikninga sinna. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert