Milljónir flóttabarna án menntunar

AFP

Fjórar milljónir barna sem eru á flótta ganga ekki í skóla, segir í nýrri skýrslu flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Þetta er fjölgun um hálfa milljón á aðeins einu ári. 

Skýrslan Turn the Tide: Refugee Education in Crisis sýnir að þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórna, UNHCR og annarra hefur ekki tekist að fækka börnum sem ekki ganga í skóla á sama tíma og flóttafólki fjölgar í heiminum.

Við árslok 2017 voru 25,4 milljónir á flótta í heiminum og af þeim voru 19,9 milljónir undir eftirliti UNHCR. Yfir helmingur þeirra eru börn, þar af 7,4 milljónir á skólaaldri.

Menntun er ein leið til þess að græða en hún er einnig lykillinn að uppbyggingu að nýju í heimalöndum þeirra, segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR.

AFP

Án menntunar bera þessi börn og samfélögin varanlegan skaða, bætir hann við. Aðeins 61% flóttabarna gengur í grunnskóla samanborið við 92% barna á heimsvísu. Á sama tíma og börnin eldast eykst bilið enn frekar. Tæplega tvö af hverjum þremur börnum á flótta sem ganga í grunnskóla fara ekki í gagnfræðaskóla. Alls ganga 23% flóttabarna í gagnfræðaskóla samanborið við 84% barna á heimsvísu. 


Þegar kemur að framhaldsnámi er hlutfall flóttafólks 15% en 23% annarra íbúa heimsins. 

Grandi bendir á að það að fara í skólann sé yfirleitt fyrsti vísirinn að eðlilegu lífi í huga barna á flótta. Ef ekkert verður að gert í náinni framtíð er hætta á að fleiri hundruð þúsund börn eigi eftir að falla undir þessa ömurlegu tölfræði.

Skýrslan í heild

mbl.is