Nýr iPhone með enn stærri skjá

iPhone Xr kom mörgum á óvart, en hann mun koma …
iPhone Xr kom mörgum á óvart, en hann mun koma út í mörgum litum. AFP

Apple kynnti fjórar nýjar vörur í gær, iPhone Xs, iPhone Xs Max og iPhone Xr, ásamt nýrri útgáfu af Apple-úrinu, Apple Watch 4.

Nýjungarnar voru kynntar til leiks á viðburði í Steve Jobs-höllinni í Kaliforníu í gær. Bandaríski tæknirisinn hefur gert ýmsar uppfærslur á símunum en mest fer fyrir iPhone Xs Max, sem státar af stærsta skjá sem sést hefur á iPhone-símunum.

Engin stórvægileg stökk

Jón Ólafsson, ritstjóri lappari.com og snjalltækjasérfræðingur, fylgdist með afhjúpuninni á nýju tækjunum en segir breytingarnar á iPhone-símunum ekki stórvægilegar: „Ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað merkilegt kæmi fram en þetta er nokkuð svipað og áður, aðeins betri myndavél, aðeins betri rafhlaða og skjárinn aðeins betri,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

„Það er eitt ár síðan síðasti síminn kom út, sem þýðir að stökkin eru ekkert stórvægileg. Þetta er uppfærsla sem iPhone X-eigendur myndu horfa fram hjá, ég myndi gera það allavega. Ef þú átt iPhone 6 eða eldri þá er þetta hins vegar stórt stökk. Ég held að iPhone Xr komi til með að verða mest keyptur, til að byrja með,“ segir Jón. 

iPhone Xs og iPhone Xs Max.
iPhone Xs og iPhone Xs Max. AFP

iPhone Xs Max og iPhone Xs

Báðir símarnir eru með skjáinn OLED-skjá og kubbinn A12 Bionic. OLED-skjárinn er talinn betri en LCD-skjárinn, sem er á iPhone Xr, þar sem hann á að gefa skýrari mynd af litum, HDR og kolsvörtu.

Á heimasíðu Apple segir að A12 Bionic sé snjallasti og kraftmesti kubbur sem notaður hefur verið í snjallsíma. Þá er greint frá bættu og hraðvirkara „Face ID“, ásamt tvískiptri myndavél.

iPhone Xs Max er með stærsta skjá allra iPhone-síma, 6,5 tommur á stærð. iPhone Xs er 5,8 tommur.

Sett verð á iPhone Xs er 999 dollarar en iPhone Xs Max 1.099 dollarar, sem nemur um 116 þúsund krónum miðað við núverandi gengi.

iPhone Xr

Síminn er búinn 6,1 tommu LCD-skjá sem er ódýrari í framleiðslu og ekki búinn sömu gæðum og OLED-skjárinn. Hann kemur út í mörgum litum sem ekki hafa sést á iPhone-símum áður, t.d. rauðum og bláum. Þá er síminn vatnsheldur og hefur þráðlausa hleðslu.

iPhone Xr er ódýrari en símarnir sem þegar hefur verið greint frá en sett verð á honum er 749 dollarar, sem nemur um 86 þúsund krónum.

Nánari upplýsingar um nýjungarnar er að finna kynningarmyndbandi Apple.

Apple Watch 4

Endurbætt útgáfa af Apple úrinu er af fjórðu kynslóð og umtalsverðar breytingar hafa orðið á því. Snjallúrið er t.a.m. með 30% stærri skjá, auk þess að vera búið hjartalínuriti.

Þá er auðveldlega hægt að hafa samskipti með hjálp úrsins, s.s. hringja símtöl, fá smáskilaboð eða óska eftir neyðaraðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert