Vill að vígamenn verði dregnir fyrir dóm

Nadia Murad, sem hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár, vill að vígamenn Ríkis íslams verði dregnir fyrir dóm frekar en að þeir verði drepnir.

Murad var í hópi þúsunda ungra kvenna sem var rænt af hryðjuverkasamtökunum í Írak fyrir fjórum árum. Stúlkunum og konunum var haldið sem kynlífsþrælum en allar tilheyrðu þær minnihlutahópi jasída í norðurhluta Íraks. Murad tókst að lokum að flýja, þremur árum eftir að henni var rænt.

Vígamennirnir myrtu eldri konur og karla í árás sinni á jasídana. Hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt gjörninginn þjóðarmorð.

„Fyrir mér þá þýðir réttlætið ekki að drepa [vígamennina] sem frömdu þessa glæpi gegn okkur,“ sagði hún á fundi með blaðamönnum í Washington í gær. „Fyrir mér felst réttlætið í því að draga [vígamennina] fyrir dóm í réttarsal og sjá þá játa þessa glæpi sem þeir frömdu gegn jasídum og að sjá þeim refsað fyrir nákvæmlega þessa glæpi.“

Margir vígamenn Ríkis íslams hafa verið drepnir á vígvellinum í Írak og Sýrlandi og þeir sem dregnir hafa verið fyrir dómstóla hafa yfirleitt verið ákærðir fyrir hryðjuverk.

Ekki verkefni fyrir eina manneskju

Murad hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár ásamt kongóska lækninum Denis Mukwege. Fá þau verðlaunin fyrir baráttu sína gegn kynferðisbrotum í stríði en oft eru nauðganir notaðar sem vopn í stríðsátökum.

Murad segist ætla að halda áfram að verja það fólk sem er ofsótt og fórnarlömb kynferðisofbeldis í Mið-Austurlöndum sem og víðar um heim. En hún segist ekki geta gert það ein og óstudd. „Ein viðurkenning og ein manneskja geta ekki náð þessum markmiðum. Við þurfum öll að leggjast á eitt.“

Hún hvetur ríkisstjórnir heimsins til að berjast gegn þjóðarmorðum og kynferðisofbeldi. Þá segir hún mikilvægt að fara að lögum svo að þeir sem brjóti af sér séu gerðir ábyrgir fyrir gjörðum sínum.

Heimaland Murad er Írak og vonast hún til þess að ný ríkisstjórn taki þar við fljótlega eftir margra mánaða pólitískan hnút. 

„Von okkar er sú að ný ríkisstjórn í Írak taki fljótlega við og að við getum unnið með henni til að tryggja að svæði þar sem þjáningin er mest, eins og í Sinjar, verði byggð upp að nýju og að íbúarnir geti snúið aftur heim til sín,“ sagði hún en Sinjar er það hérað í Írak þar sem jasídar hafa helst haldið til en verið hraktir frá.

Spurð út í áhrif Metoo-hreyfingarinnar sagðist Murad vonast til þess að hlustað verði áfram á raddir fórnarlamba kynferðisofbeldis. „Von mín er sú að allar konur sem tala um reynslu sína af kynferðisofbeldi fái áheyrn og að þær telji sig öruggar þó að þær deili sögum sínum.“

Nadia Murad, 24 ára, ræðir við blaðamenn í Washington í …
Nadia Murad, 24 ára, ræðir við blaðamenn í Washington í gær. AFP
mbl.is