Hitti son sinn 31 ári eftir að hann hvarf

Jermaine Allan Mann og faðir hans Allan Mann. Jermain var …
Jermaine Allan Mann og faðir hans Allan Mann. Jermain var 21 mánaðar er hann hvarf. Ljósmynd/Missing Children Society of Canada

Kona nokkur í Kanada hefur nú hitt son sinn á ný, 31 ári eftir að hann hvarf. Jermaine Allan Mann var rænt af föður sínum árið 1987, er hann var 21 mánaðar gamall. Hafði faðir hans, Allan Mann, gert sér ferð til Toronto til að heimsækja soninn, en hann hafði skilið við móður hans árið áður. Hann tók strákinn síðan með sér á brott.

Feðgarnir hafa frá þeim tíma búið undir fölskum nöfnum í Bandaríkjunum, allt þar til faðirinn var handtekinn á dögunum fyrir að nota fölsuð skilríki.

Með því lauk rannsókn lögregluyfirvalda í báðum ríkjum við að hafa uppi á drengnum.

BBC segir Jermaine Allan Mann, sem nú er 33 ára, hafa verið sagt að móðir hans hefði látist er hann var ungabarn, en hún flaug til Bandaríkjanna nú um helgina til að hitta hann.

„Orð geta ekki lýst því hvernig mér leið,“ sagði móðirin Lyneth Mann-Lewis um tilfinninguna að hitta son sinn á ný. „Orðin: Sonur þinn er á lífi. Við erum búin að finna hann. Þau voru ótrúleg,“ sagði hún og kvað það fyrsta sem hún hefði gert er þau hittust hefði verið að grípa í hann. „Ég vildi finna að hann væri raunverulegur,“ útskýrði hún. „Svo sagði ég „Guð minn góður, barnið mitt“.“

Mæðginin ræddust við tímunum saman og Mann-Lewis gætti þess að elda máltíð fyrir son sinn áður enn hún flaug aftur til Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert