Vildi ekki lifa lengur í búri

AFP

Bandaríkjamaður á sextugsaldri var tekinn af lífi í Suður-Dakóta-ríki í Bandaríkjunum í gær þrátt fyrir ákall um að hætt yrði við aftökuna á þeim forsendum að hann væri þroskaskertur og þar af leiðandi lagalega undanþeginn því að þurfa að þola refsinguna.

Rodney Berget var tekinn af lífi 18 árum eftir að bróðir hans hlaut sömu örlög í Oklahoma-ríki fyrir að myrða konu þegar hann reyndi að stela bifreið hennar. Berget var tekinn af lífi fyrir að myrða fangavörð í misheppnaðri tilraun árið 2012 til þess að flýja fangelsið sem hann sat í. Hann afplánaði þá lífstíðardóm fyrir tvær morðtilraunir og nauðgun.

Við réttarhöldin sagði Berget: „Ég tel að ég eigi skilið dauðarefsinguna fyrir það sem ég hef gert,“ segir í frétt AFP. Þrátt fyrir það var aftöku hans frestað nokkrum sinnum vegna áfrýjana. Berget dró hins vegar til baka síðustu áfrýjun sína árið 2016. Tjáði hann dómara að hann gæti ekki þolað að vera önnur 30 ár í búri við að afplána lífstíðardóm.

Þetta var fjórða aftakan í Suður-Dakóta síðan dauðarefsing var tekin upp á ný í ríkinu 1976.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert