Rannsókninni ógnað af brotthvarfi Session

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra. AFP

Rannsókn bandarískra yfirvalda á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 er ekki vandamál Rússa. Þetta er mat rússneskra ráðamanna, en dómsmálaráðherrann Jeff Sessions lét af störfum í gær að beiðni Donald Trump Bandaríkjaforseta.

„Rannsóknin er hausverkur fyrir bandaríska kollega okkar. Hún hefur ekkert með okkur að gera,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, við fjölmiðla er hann var spurður hvort brotthvarf Sessions úr embætti myndi hafa áhrif á rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara í rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á málinu.

Heita því að verja rannsóknina

Þingmenn Demókrataflokksins á Bandaríkjaþingi hafa sagt rannsókninni vera ógnað með brottvikningu Sessions, að því er BBC greinir frá. Sagði Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, að ákvörðunin sé „augljós tilraun“ til að binda endi á eða hefta rannsóknina.

Settur arftaki Sessions í embætti, Matthew Whitaker, hefur gagnrýnt rannsóknina. Demókratar sem náðu meirihluta í fulltrúadeild þingsins í nýafstöðnum kosningum hafa hins vegar heitið því að verja rannsóknina.

Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins deila raunar áhyggjum demókrata af afdrifum rannsóknarinnar og hafa öldungadeildarþingmennirnir og repúblikanarnir Susan Collins og Mitt Romney sagt að ekki eigi að hindra hana með neinum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert