Er 69 en þráir að vera 49

Hollenskur eftirlaunaþegi hefur höfðað mál gegn ríkinu þar sem hann krefst þess að fá að breyta aldri sínum í þeirri von að eiga meiri möguleika á stefnumótavefjum. 

Emile Ratelband, sem er 69 ára gamall, hefur óskað eftir því að fá gerða breytingu á fæðingardegi sínum úr 11. mars 1949 í 11. mars 1969. Segir hann þetta svipað og að vera transmanneskja.

„Þú getur breytt nafni þínu. Þú getur breytt kyni þínu. Hvers vegna ekki aldri þínum?“ spyr Ratelband í viðtali við hollenska dagblaðið De Telegraaf. BBC greinir frá þessu.

Von er á niðurstöðu héraðsdóms Arnhem innan fjögurra vikna. Hollenska dagblaðið Algemeen Dagblad segir í frétt að efasemdir séu meðal dómara um kröfur mannsins. Enda séu ekki nein lög sem heimila fólki að breyta fæðingardegi sínum.

Stefnumótaforritið Tinder er vinsælt um þessar mundir.
Stefnumótaforritið Tinder er vinsælt um þessar mundir.

Ratelband er á annarri skoðun og segir að hann líti á þetta sem mismunun. Honum sé mismunað vegna aldurs og þetta hafi áhrif á möguleika hans á vinnu og gengi á stefnumótasíðunni Tinder.

„Þegar ég er 69 eru mér takmörk sett en ef ég er 49 þá get ég keypt nýtt hús, keyrt öðruvísi bíl og ég get unnið meira,“ segir Ratelband.

Hann bætir við að þegar hann er á Tinder og greini frá því að hann sé 69 ára þá fái hann engin svör en þegar hann segist vera 49 ára, án þess að skipta myndinni út, þá sé hann í góðum málum.

Ratelband segir að læknar hans segi að líkami hans sé eins og hjá 45 ára. Hann ætlar að hætta að þiggja eftirlaun ef kröfum hans verður mætt fyrir dómi.

BBC

mbl.is