Segir ESB geta liðið undir lok

Michel Barnier.
Michel Barnier. AFP

„Evrópusambandið er viðkvæmt, það á undir högg að sækja, það getur liðið undir lok. Og á sama tíma er sambandið mikilvægt,“ sagði Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðum við bresk stjórnvöld um útgöngu Bretlands úr sambandinu, í ræðu í Helsinki, höfuðborg Finnlands, á fimmtudaginn.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að Barnier hafi sagt að Evrópusambandinu væri ógnað af Nigel Farage-um í öllum ríkjum þess. Þar vísaði Barnier til fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, Nigels Farage sem átti mikinn þátt í að boðað var til þjóðaratkvæðis um veru Bretlands í Evrópusambandinu 2016 sem leiddi til þess að meirihlutinn kaus með því að segja skilið við sambandið.

Barnier sagði ennfremur að Evrópusambandinu stæði frammi fyrir eyðileggingu af völdum popúlískra stjórnmálaflokka í kosningum til Evrópuþingsins á næsta ári. Sagði hann kosningarnar verða baráttu á milli þjóðernissinnaðra flokka og flokka sem væru hlynntir Evrópusambandinu um sál sambandsins.

„Þessar kosningar verða erfiðari en fyrri kosningar. Við þurfum að berjast gegn þeim sem vilja eyðileggja Evrópusambandið. Með hræðsluáróðri þeirra. Með populískum blekkingum þeirra. Og með árásum þeirra gegn Evrópuverkefninu. Það er núna Farage í hverju landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert