Spenna eykst vegna deilunnar um Asovshaf

Úkraínska þingið samþykkti í kvöld að herlögum yrði lýst yfir í landinu, eftir að Rúss­ar her­tóku þrjú úkraínsk her­skip skammt frá Krímskag­an­um um helg­ina og virðist spennan í samskiptum ríkjanna nú stigmagnast enn á ný. En um hvað snýst málið eiginlega?

Reuters-fréttaveitan segir pattstöðuna vera afleiðingu vaxandi tregðu í samskiptum ríkjanna vegna skipaumferðar um Asovshaf, innhaf úr Svartahafi sem liggur milli Krímskaga og meginlands Úkraínu í norðri og Rússlands í austri.

Úkraínsk yfirvöld hafa sakað rússneska ráðamenn um að standa fyrir viðskiptaþvingunum gegn úkraínskum höfnum við Asovshaf og segja það hluta af stríðsaðgerðum þeirra gegn Úkraínu. Hafa þau raunar hvatt Vesturlönd til að beita Rússa enn frekari refsiaðgerðum vegna þessa.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum Úkraínu og Rússlands frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga í Rússland árið 2014 og studdu síðan aðgerðir uppreisnarmanna í Donbass-héraði í austurhluta Úkraínu sem kostað hafa yfir 10.000 manns lífið, þrátt fyrir að vopnahléi hafi verið lýst yfir.

Hafa deilt um Asovshaf frá fyrsta kjörtímabili Pútíns 

Reuters segir deilur ríkjanna um yfirráð yfir Asovshafi og Kertssundi, 4 km mjóu sundi sem tengi Asovshaf við Svartahafið, hins vegar vera enn eldri. Spenna hafi blossað upp þegar árið 2003, á fyrsta kjörtímabili Vladimír Pútíns sem Rússlandsforseta.

Sættir náðust þá með samkomulagi um að bæði ríki gætu nýtt Kertssundið fyrir kaupskipaferðir, en að láta yrði hitt ríkið vita þegar herskip færu um sundið.

Spennan hefur hins vegar farið stigvaxandi á svæðinu allt þetta ár og hafa úkraínsk stjórnvöld ítrekað sakað Rússa um að stöðva skip sem séu að sigla til og frá höfnum Úkraínu við Asovshaf, sérstaklega þau skip sem komi frá  Mariupol og Berdyansk. Fullyrða þau raunar að markmiðið sé að spilla fyrir viðskiptum.

Rússar saka á móti úkraínsk yfirvöld um áreitni í garð rússneskra skipa. Segja rússnesk yfirvöld þeirra athuganir á úkraínskum skipum hins vegar vera í fullu samræmi við lög og gerð til þess að tryggja öryggi á svæðinu.

Brúarsmíði Rússa vekur reiði Úkraínumanna

Borgin Mariupol var á valdi aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum, um skamma hríð áður en úkraínskar hersveitir náðu henni á sitt vald á ný.

Mikill stál- og kornútflutningur er frá borginni, sem og kolainnflutningur og segja úkraínsk yfirvöld að umferð um höfnina hafi minnkað um 30% frá því að Rússar tóku að áreita skip þeirra. Hefur útflutningur um Mariupol dregist saman um 6% það sem af er ári og innflutningur um 9%. Útflutningur um Berdyansk hefur hins vegar dregist saman um 12,3%.

Áætlanir Rússa um að byggja 3,6 milljarða brú frá meginlandi Rússlands yfir Kertssundið hafa líka vakið reiði Úkraínumanna, en sundið tengir Asovshafið Svartahafinu. Segja úkraínskir ráðamenn brúna það lága að ekki muni öll skip að komast um sundið eftir að smíði hennar er lokið og muni það hamla viðskiptum enn frekar.

Segjast hafa látið vita af ferðum skipanna

Rússar sökuðu um helgina úkraínsku her­skip­in þrjú og áhafn­ir þeirra um að hafa farið inn í rúss­neska land­helgi án heim­ild­a og segja þau með því vera að auka á spennu. Úkraínsk yfirvöld fullyrða hins vegar að þau hafi látið Rússa vita af ferðum skipanna, sem sé í fullu samræmi við samkomulagið frá 2003.

Líkt og áður taka herlög gildi í Úkraínu á miðvikudag og þá eru úkraínsk yfirvöld líkleg til að hvetja vestræna bandamenn sína til að beita Rússa enn frekari refsiaðgerðum.

Grípi Úkraína hins vegar til hernaðaraðgerða má gera því skóna að Rússar muni gera hið sama og sjóher Rússa við Svartahaf, sem er staðsettur við Krímskaga, er mun öflugri en sá úkraínski.

Örygg­is­ráð Sam­einuðu þjóðanna boðaði til neyðar­fund­ar vegna máls­ins í dag, en eng­in niðurstaða lá fyr­ir að fundi lokn­um. Málið hef­ur einnig ratað á borð Atlants­hafs­banda­lags­ins sem einnig boðaði til neyðar­fund­ar í höfuðstöðvum sín­um í Brus­sel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert