Felldu háttsettan leiðtoga Ríkis íslams

Hópar vopnaðra Íraka hafa tekið þátt í baráttunni gegn vígamönnum …
Hópar vopnaðra Íraka hafa tekið þátt í baráttunni gegn vígamönnum Ríkis íslams í Sýrlandi. AFP

Hernaðarbandalagið sem Bandaríkjamenn leiða í Sýrlandi gegn Ríki íslams hefur fellt háttsettan leiðtoga vígasamtakanna sem m.a. kom að aftökum á bandarískum hjálparstarfsmanni og öðrum vestrænum gíslum. 

Abu al-Umarayn var sakaður um að hafa átt þátt í aftökunni á Peter Kassig í nóvember árið 2014. Kassig var sjálfboðaliði í mannúðarstarfi í Sýrlandi er hann var tekinn í gíslingu árið 2013.

Talsmaður hernaðarbandalagsins, Sean Ryan, segir að Abu al-Umarayn hafi verið drepinn og að nánari upplýsingar verði gerðar opinberar síðar. Yfirlýsing hans var gerð í kjölfar loftárása í gær. Ryan segir að ógn hafi stafað af Al-Umarayn og að hann hafi átt þátt í aftöku Peter Kassig. Þá hafi hann einnig átt þátt í aftökum nokkurra annarra gísla Ríkis íslams til viðbótar.

Peter Kassig að störfum í Sýrlandi síðla árs 2012. Hann …
Peter Kassig að störfum í Sýrlandi síðla árs 2012. Hann stofnaði mannúðarsamtök en var tekinn í gíslingu árið 2013. AFP

Þetta er í fyrsta sinn sem hernaðarbandalagið, sem hefur leitað leiðtoga Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi frá árinu 2014, tilkynnir um dráp á vígamanni í tengslum við morðið á Kassig sem var hálshöggvinn.

Er hann var tekinn af lífi birtu vígasamtökin myndband af höfði Kassig en birtu ekki myndband af afhöfðuninni sjálfri líkt og þau höfðu gert varðandi aftökur annarra fanga.

Stjórnarher Sýrlands hefur sakað hernaðarbandalagið um að skjóta á bækistöðvar sínar á afskekktum svæðum í austurhluta landsins í gær. Segir hann flugskeytum hafa verið skotið að hersveitum í Ghorab-fjöllum. Engan hafi sakað en skemmdir orðið á búnaði. Þá segja mannréttinda- og eftirlitssamtökin The Syrian Observatory for Human Rights að hernaðarbandalagið hafi skotið yfir fjórtán flugskeytum að bílalest stjórnarhersins í eyðimörkinni. Þar hefur hernaðarbandalagið oft tekið sér stöðu í árásum sínum gegn vígamönnum Ríkis íslams. Talsmaður bandalagsins segir að engar árásir hafi vísvitandi verið gerðar á stjórnarherinn. „Þetta er rangt, loftárásunum var eins og áður hefur verið greint frá, beint að ISIS [Ríki íslams],“ segir hann.

Stofnaði mannréttindasamtök

Kassig stofnaði mannréttindastök árið 2012 þar sem um 150 almennir borgarar fengu þjálfun í að veita þurfandi læknisaðstoð í Sýrlandi. Samtök hans útdeildu einnig mat, áhöldum til matargerðar, fötum og lyfjum. Hann tók sér nafnið Abdul Rahman eftir að hafa tekið upp múhameðstrú.

Hann var í hópi þeirra Vesturlandabúa sem voru í haldi vígamannanna og teknir voru af lífi með óhugnanlegum hætti. Aftökurnar voru teknar upp og myndböndin birt opinberlega. 

Böðull­inn Mohammed Emwazi, eða Víga-John eins og hann var kallaður.
Böðull­inn Mohammed Emwazi, eða Víga-John eins og hann var kallaður.

Áður en Kassig var afhöfðaður, sem vígamennirnir tilkynntu um miðjan nóvember árið 2014, höfðu fjórir aðrir gíslar verið teknir af lífi:

Breski hjálparstarfsmaðurinn Alan Henning (myndband af aftöku var birt 3. október 2014).

Breski hjálparstarfsmaðurinn David Haines (myndband af aftöku birt 13. september 2014).

Bandaríski blaðamaðurinn Steven Sotloff (myndband birt 2. september).

Bandaríski blaðamaðurinn James Foley (myndband af aftökunni birt 19. ágúst 2014).

Einn gísl til viðbótar, sem var í haldi á þessum tíma, var breski blaðamaðurinn John Cantlie. Vígamennirnir birtu myndband af honum þar sem hann þuldi upp áróður Ríkis íslams. Sex ár eru frá því að honum var rænt og enn er ekki vitað hver örlög hans urðu.

Leiðtogi vígahópsins sem framkvæmdi aftökurnar er talinn hafa verið Mohammed Emwazi, breskur öfgamaður sem gekk undir gælunafninu Víga-John (jihadi-John). Hann var felldur í drónaárás árið 2015.

Uppreisnarmenn sem berjast gegn vígamönnum Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands, …
Uppreisnarmenn sem berjast gegn vígamönnum Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands, taka sér stöðu bak við sandpoka. Þar er hart barist gegn vígamönnum Ríkis íslams. AFP

Á þessum tíma náði Ríki íslams valdi á svæði í Sýrlandi og Írak sem var stærra að flatarmáli en Bretland. En þá fór að halla undan fæti enda hófst mikið áhlaup bandalagsríkja gegn hryðjuverkasamtökunum.

Í dag hafa samtökin engin áhrif í Írak en verja enn af mikilli hörku nokkur lítil yfirráðasvæði í Sýrlandi, m.a. svæði þar sem loftárásirnar voru gerðar í kvöld.

Hitt svæðið er í kringum Deir-Ezzor þar sem hersveitir Kúrda, með stuðningi bandalagsríkja, reyna að koma vígamönnunum frá. Þeir eru þó ekki enn á þeim buxunum að flýja af hólmi.

Ung stúlka sem lagði á flótta frá Deir Ezzor vegna …
Ung stúlka sem lagði á flótta frá Deir Ezzor vegna átaka þar er nú komin í flóttamannabúðir í norðausturhluta Sýrlands. AFP

Hernaðarbandalagið, undir forystu Bandaríkjanna, stjórnarher Sýrlands sem og hans helstu bandamenn, Rússar, hafa heitið því að gefast ekki upp fyrr en Ríki íslams verður gjörsigrað. 

Hins vegar hefur verið varað við því að slíkt markmið sé nánast ómögulegt þar sem vígamennirnir fela sig víða um eyðimörkina sem þeir þekkja betur en aðrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka