Átök í Búdapest

Til átaka kom á götum úti í Búdapest í Ungverjalandi í gær þar sem reyksprengjum var kastað að lögreglu sem svaraði með táragasi. Þúsundir tóku þátt í mótmælum vegna nýrra laga, svonefndra „þrælalaga“, sem samþykkt voru í þinginu í liðinni viku. Frumvarpið var lagt fram af ríkisstjórn Viktors Orban. 

Yfir 15 þúsund tóku þátt í mótmælunum en um fyrstu fjöldamótmælin er að ræða frá því Orban komst til valda árið 2010. Þátttakendur komu úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum, allt frá Græningjum til þeirra sem eru lengst til hægri. 

Verkalýðsfélögin hvöttu til mótmæla ásamt stjórnarandstöðunni en nýju lögin miða að því að hækka yfirvinnuþakið úr 250 stundum á ári í 400 tíma og að launagreiðendur megi taka allt að þrjú ár í að greiða launafólki fyrir vinnu sína.

Ríkisstjórnin segir breytingarnar nauðsynlegar þar sem skortur sé á vinnuafli og þeir sem vilji vinna yfirvinnu muni hagnast á breytingunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert