Lögreglumaður dæmdur fyrir morð

Jason Van Dyke.
Jason Van Dyke. AFP

Fyrrverandi lögreglumaður í Chicago, Jason Van Dyke, var í gær dæmdur í sex ára og níu mánaða langt fangelsi fyrir að hafa drepið Laquan McDonald, 17 ára svartan strák, árið 2014. 

Myndskeið þar sem Van Dyke sést skjóta McDonald var birt á samfélagsmiðlum ári síðar og kom til mikilla mótmæla á götum úti í borginni og víðar í kjölfarið. Við dómsuppkvaðninguna í gær kom fram í vitnisburði íbúa í Chicago að Van Dyke hafi ekki alltaf farið eftir bókinni í starfi. Til að mynda hafi hann haldið kverkataki um eitt vitnanna sem hafði neitað að skyrpa út úr sér hálstöflu. Annar sagði að Van Dyke hafi sett byssu að höfði hans og æpt á hann rasísk ókvæðisorð. Mágur Van Dyke, sem er svartur, sagði aftur á móti að hann hafi aldrei vitað til þess að mágur hans væri kynþáttahatari.

AFP

Við réttahöldin í október var Van Dyke sakfelldur fyrir morð sem og aðra ákæruliði, 16 talsins, einn fyrir hvert skot sem hann skaut á McDonald.

Upptaka úr mælaborði lögreglubifreiðarinnar sýnir að McDonald, sem var í mikilli vímu (PCP eða englaryk), neitaði að hlýða skipun lögreglumannsins sem skipaði honum að leggja frá sér hnífinn sem hann bar en McDonald gekk um götur hverfisins með hnífinn í hendinni.

Fjölmiðlar í Chicago segja niðurstöðu dómsins sláandi en þetta sé í fyrsta skipti sem lögreglumaður er dæmdur sekur um saknæmt athæfi þegar hann skýtur mann til bana í starfi. 

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert